136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég verð að viðurkenna það í byrjun að ástæða þess að ég tek til máls er kannski ekki sú að ég telji að ræða mín muni skipta sköpum í þessu þingmáli heldur er ég miklu fremur að gæla við minn eigin hégóma. Hégóma varaþingmanns á þessu kjörtímabili en þingmanns á því síðasta, sem lenti í því fyrsta veturinn að verða fyrir þessu máli, þ.e. frumvarpinu frá 2003, um gríðarleg lífeyrisréttindi, einkum ráðherra. Þetta var erfitt mál fyrir nýjan þingmann og ekki síst vegna þess, eins og Bjarni Benediktsson reyndi að nota sem einhvers konar mótrök í hefðbundnum karpstíl, að flokkur minn fór ekki rétt að í þessum efnum og gerði mistök sem hann sjálfur hefur nú gert upp. Að lokum fór svo að aðeins einn þingmaður flokksins, flutningsmaðurinn, (Gripið fram í.) greiddi atkvæði með frumvarpinu en verulegur hluti flokksins greiddi atkvæði á móti. Ég var í þeim hópi og er stoltur af því, virðulegi forseti, og rifja það upp sjálfum mér til vegsemdar og aukins hégóma.

Hins vegar hefur verið sérkennilegt að hlusta á þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ég heyrði í, hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Bjarna Benediktsson, ræða um málið eins og málfundur standi yfir í MR eða Versló og fara í tæknilega hluti. Fyrirspurnir til ráðherrans sem flytur frumvarpið eru eðlilegar en ósköp var mál þeirra fjarri kjarnanum og langt frá því að vera umræða um frumvarpið í heild sinni, eins og þingsköp leiðbeina um 1. umr. um frumvörp. Þetta er sérkennilegt vegna þess samhengis sem frumvarpið er flutt í, að hér er í raun og veru verið að endurbæta frumvarp sem flutt var fyrir jól. Því frumvarpi verður að segja til hróss að það bætti þó nokkuð úr því rugli og þeim ruddahætti sem fólst í frumvarpinu frá 2003, en þó ekki nóg og skapaði engan frið í samfélaginu eins og því var þó ætlað, eða var veikburða tilraun til, vegna þess að það kom of seint og gekk of stutt og var ekki í takt við óskir almennings, eins og þær voru þá og höfðu í raun lengi verið ljósar. Sjálfstæðisflokkurinn vildi þá ekki fara lengra. Samfylkingin, hinn stjórnarflokkurinn, reyndi að toga hann í þessa átt en það var eins og í öðrum málum frá því að hrunið mikla skall á að Sjálfstæðisflokkurinn sat með hendur í vösum, „haardaði“ eins og sagt var á götunum — ný sögn var búin til í því skyni eftir formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Geir H. Haarde. Þetta var eitt þeirra mála sem var „haardað“ þannig að í því samhengi sem það er nú flutt er verið að taka til.

Nú er farið með sópinn á verk ekki bara síðustu ríkisstjórnar heldur ríkisstjórnarinnar þar áður. Ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haardes, eftir atvikum. Ríkisstjórnar græðgisvæðingarinnar, einkavæðingarinnar, góðærisins og misréttisins. Ríkisstjórnarinnar sem horfði upp á það að tiltölulegt jafnræði í kjörum, sem hafði einkennt íslenskt samfélag í marga áratugi, var skyndilega horfið og þeir fátæku voru orðnir fátækari en hinir ríku miklu ríkari og þegar þessi ríkisstjórn og fylgismenn hennar horfðu upp á þetta kom þeim helst til hugar til ráðs úr þeim vanda að hækka og bæta kjörin hjá sjálfum sér. Það var gert með hinu víðfræga frumvarpi frá 2003 sem í raun og veru var sjálftaka lífeyris af hálfu þeirra sem það fluttu og auðvitað er rétt hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni sem hér talaði áðan, að það voru fyrst og fremst ráðherrarnir sem þess nutu, einkum forsætisráðherrarnir, einkum tveir, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, oddvitar þeirrar ríkisstjórnar.

Þetta var í raun og veru svo gróft að almenningur reis strax upp á móti þessu með miklum mótmælum hér á Austurvelli, þó að þau kæmust ekki í hálfkvisti við (Gripið fram í.) þau mótmæli sem við horfðum upp á í haust og þó einkum eftir áramótin og hv. þm. Pétur H. Blöndal og fleiri pirruðu sig mikið á og eru enn að jafna sig á. Þetta er samhengið, sem við fjöllum nú um þetta frumvarp í. Það er liður í ákveðinni dagskrá á þinginu til þess annars vegar að leggja grunn að nýju samfélagi í efnahagslegum skilningi og hins vegar til að skapa sættir, skapa samhengi í siðrænum skilningi og reyna að brúa þá gjá sem hefur myndast á síðustu 10, 15, 20 árum milli þeirra sem nutu góðærisins helst og þeirra sem nutu þess síður. Þó ekki síst til að skapa ákveðinn nýjan grunn undir það samfélag sem við búum í og þarf ekki einungis að huga að stjórnskipan sinni, lýðræðisreglum, sem m.a. koma fram í tillögum um stjórnlagaþing og kynntu frumvarpi um persónukjör í alþingiskosningum, heldur líka hugmyndalegum grunni, þeim gildum sem við ætlum okkur að starfa eftir og lifa eftir næstu áratugina eftir þann trylling og það mikla fyllirí sem hér hefur staðið yfir lengi.

Eðlilegt er að grípa til gamalla gilda í þeim efnum og ekki þarf að fara lengra á Alþingi Íslendinga en aftur til gamla sjómanna- og bændasamfélagsins í leit að gildum eins og vinnusemi, nægjusemi, samtökum, samhjálp, að kapp sé best með forsjá og að við eigum að huga að því sem lengi stendur en ekki því sem endist skamma hríð. Sem og þeim gildum fornra tíma sem voru túlkuð með orðum eins og guðsgjafir og skyldu okkar til að nýta þær gjafir með hæfilegum hætti, sem í nútíma mætti líka umorða með því að tala af virðingu um náttúruna og gæði hennar og það samfélag sem áar okkar, afar og ömmur hafa fært okkur í hendurnar og er í grunninn gott samfélag, þó að við höfum villst af leið að undanförnu.

Í þessu samhengi er frumvarpið flutt. Þetta er gott frumvarp og væri við hæfi að ræða það með öðrum hætti en að halda sig við tækniumræðu. Hins vegar er eðlilegt að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins geri það vegna þess að það er ekki feimnislaust sem þeir taka við þessu frumvarpi. Af þeim þrjátíu sem greiddu þessu atkvæði eru t.d. enn á þingi hv. þingmenn Árni Mathiesen, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Björn Bjarnason, Geir H. Haarde, Kjartan Ólafsson, Pétur Blöndal, Sturla Böðvarsson og reyndar nokkrir framsóknarmenn að auki sem vegna sérstakrar afsökunarbeiðni hv. þm. Birkis J. Jónssonar og þingflokksleiðtoga Framsóknarflokksins verður sleppt að geta hér og einn frá Samfylkingunni eins og áðan var rakið og ekki dregin nein fjöður yfir. (Gripið fram í.) Þetta mál var Samfylkingunni erfitt vegna þess að einhverjir forustumanna höfðu glapist til að standa að þessu frumvarpi í skammsýni vegna einhvers konar vinarþels eða jafnvel samtryggingar og að ég held, af því að það er orðið seint um kvöld hér, vegna þess áhuga sumra samfylkingarmanna — forseti, þeir eru ekki að hlusta þegar ég ræði um sögu Samfylkingarinnar, það er sérkennilegt — sem þeir héldu að væri raunverulegur en reyndist auðvitað tálsýn, að með því að taka með einhverjum hætti þátt í samvinnu við Davíð Oddsson og fleiri slíka kújóna og hæstv. ráðherra á þeim tíma, mundi það með einhverjum hætti geta riðlað því stjórnarsamstarfi sem þá var uppi. Sá draumur nokkurra manna innan Samfylkingarinnar að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn gæti orðið Samfylkingunni eða þjóðinni til heilla bæði var og reyndist tálsýn. Út af fyrir sig gott og þarft að það skuli hafa verið reynt og menn skuli hafa komist að því núna að það var ómögulegt.

Það sýndi m.a. frumvarpið sem var flutt fyrir nokkrum — ja, hvað var það, einum og hálfum mánuði, þar sem ekki tókst að toga Sjálfstæðisflokkinn út í annað en ofurlitlar lagfæringar og viðbætur, í stað þess að hér er gengið hreint til verks og lífeyriskjör þingmanna og þá einkum ráðherra eru færð til þess sem háttar um opinbera starfsmenn og ég er alveg viss um, virðulegi forseti, að er í samræmi við vilja þjóðarinnar allt frá árinu 2003 þegar lögin voru samþykkt.