136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi mig vera að ræða um frumvarpið í heild sinni og hvernig það lítur út. Ég gat um frumvarp sem ég flutti um að þingmenn gætu valið sér lífeyriskjör eins og almennt gerist í þjóðfélaginu. Ég tel að þau kjör sem 80% þjóðarinnar búa við séu hin almennu kjör. Þau kjör sem 20% þjóðarinnar búa við eru ekki hin almennu kjör. Það eru sérkjör og það eru forréttindakjör eins og ég hef margoft getið um hérna. Ég ætla að vona að ræða mín sé ekki neitt annað en almennt um frumvarpið.

Ég spurði að því áðan og ég spyr nú hv. þingmann hvort hann muni þá ekki greiða atkvæði með breytingartillögu frá mér um að þingmenn geti valið sér hin almennu kjör í þjóðfélaginu hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna, hjá Lífeyrissjóði sjómanna, Lífeyrissjóði bænda o.s.frv. þar sem þeir eru velkomnir. Þeir deila þá kjörum með umbjóðendum sínum, kjósendum sínum og búa ekki í neinum fílabeinsturni.

Nú veit ég ekki með hv. þingmann, hvort hann á bara réttindi í opinberum sjóðum. En ég á heilmikil réttindi hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna og víðar úti í atvinnulífinu. Ég vil deila kjörum með umbjóðendum mínum, ég vil ekki búa í einhverjum fílabeinsturni og vita ekki hvað er að gerast niðri á dekki eða niðri í lest. Ég skora á hv. þingmann að styðja breytingartillögu mína um það og deila hinum almennum kjörum með almenningi í landinu eða að leyfa mér alla vega að gera það.