136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:51]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var á vissan hátt fróðlegt að fylgjast með hv. þingmanni gæla við hégóma sinn, eins og hann sagðist sjálfur vilja gera, og fjalla um þetta mál og afstöðu annarra þingmanna að vana án yfirlætis, sérstaklega þeirra sem eru á öndverðum meiði við hann. Honum tókst að sýna mikinn drengskap, ekki síst þeim sem eru með honum í flokki, og felldi sína dóma yfir afstöðu þeirra í þessu máli eins og honum er tamt að gera.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann að tvennu. Í fyrsta lagi: Hvað er það sem kallar sérstaklega á það að mati hv. þingmanns að þær reglur sem gilt hafa um eftirlaunaréttindi forseta Íslands verði afnumdar? Þær hafa verið þannig að eftir eitt kjörtímabil hefur forsetinn átt rétt á því að taka eftirlaun að liðnum sex mánuðum sem hann nýtir til biðlauna. Hann getur tekið 60% eftirlaun eftir eitt kjörtímabil, 70% eftir tvö en eftir það hefur hann getað notið 80% eftirlauna algjörlega óháð aldri. Hvað er það sem kallar sérstaklega á að þessi regla sé afnumin og um hann gildi sömu reglur og þá sem þiggja lífeyrisréttindi úr A-deildinni?

Ég vil líka gjarnan fá afstöðu þingmannsins til þeirrar reglu sem verið er að festa í sessi og viðhalda, að þingmenn geti gegnt opinberum störfum og þegið eftirlaun á sama tíma.