136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:58]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ræða mín var nú ekki flutt til þess að fara nákvæmlega ofan í þessi atriði. Flutningsmenn gera það og svara fyrirspurnum um þau. Ég er varaþingmaður á þessu þingi og treysti félögum mínum, stjórnarliðum og stuðningsmönnum stjórnarinnar og öðrum góðum þingmönnum fullkomlega til þess að fara í gegnum frumvarpið í þeirri háu nefnd sem það fær til umfjöllunar. Það er væntanlega allsherjarnefnd, eins og hv. þingmaður þekkir af tvöfaldri umfjöllun um frumvörp af þessum toga þar.

Meginmálið fyrir mér er að hér eru afnumin forréttindi sem sérstaklega voru á sett árið 2003 í því andrúmslofti græðgi og eignagleði sem Davíð Oddsson hvatti til í kosningum — gott ef það voru ekki einmitt kosningarnar 2003 eða kosningarnar áður — og þeirri óráðsíu og rugli sem að lokum leiddi okkur á þær brautir sem við nú erum á. Ég held að ekkert frumvarp sem ég man eftir á síðari tímum hafi valdið jafnmikilli ólgu í samfélaginu og þetta frumvarp. Ekkert frumvarp hefur skapað dýpri gjá — og þá get ég jafnvel talið fjölmiðlafrumvarpið fræga með — á milli stjórnmálastéttarinnar, sem svo er stundum kölluð, og almennings í landinu og einmitt þetta frumvarp þar sem sjálfir ráðamennirnir, sjálfir flutningsmenn frumvarpsins, sem píndu þingmeirihluta sinn áfram með þeim hætti að jafnvel hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Pétur Blöndal urðu að segja já við því. Ég tel að ekkert frumvarp hafi valdið slíkum óróa og slíkri ósátt hjá þjóðinni sem frumvarpið frá árinu 2003. Ég endurtek með yfirlæti og stolti að ég er ákaflega ánægður með að ný ríkisstjórn, sem ég styð, skuli flytja nú (Forseti hringir.) frumvarp um afnám þessara sérréttinda.