136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[22:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi bara að þessi orðaskipti okkar væru orðin svo rækileg nú þegar að ég þyrfti í sjálfu sér ekki að reyna að endurtaka og útskýra það sem ég hef sagt, þ.e. að sjónarmið hv. þingmanns liggi mjög skýr fyrir. Hann er búinn að margendurtaka þau hér í kvöld. Ég held að þau hafi komist skýrt til skila, ég er nú orðinn nokkuð vel upplýstur um það hvaða viðhorf hv. þingmaður hefur í þessum efnum.

Ég hef á hinn bóginn reynt að útskýra það af hverju sú leið er valin sem hér er farin og að nærtækast sé að þessi hópur fari inn í lífeyrissjóðakerfi hins opinbera, það sé nærtækast og skyldast. Að hluta til er um að ræða opinbera embættismenn — (Gripið fram í.) að sjálfsögðu, hæstaréttardómarar eru opinberir embættismenn. Í öðrum tilvikum er um að ræða kjörna fulltrúa eða skipaða, t.d. í því tilviki að ráðherrar sem ekki eiga sæti á þingi gegni ráðherrastörfum. En að öðru leyti kjörna fulltrúa, þar sem eru forsetinn og þingmenn — þó að þeir séu að sjálfsögðu ekki embættismenn í hefðbundnum skilningi og starfi ekki á vegum framkvæmdarvaldsins, ef hv. þingmaður vill endurtaka það, þá er það nú samt þannig að ríkið greiðir þeim laun og það er margt skylt með þeirra stöðu að því leyti til og annarra opinberra starfsmanna.

Ég er þeirrar skoðunar og bakka ekkert með það að eðlilegasta fyrirkomulagið sé á þann veg að þessi hópur tilheyri þá þeim hluta lífeyrissjóðakerfisins sem þar á undir. Ég hef hlustað á sjónarmið hv. þingmanns sem vill að þingmenn geti valið hvort þeir gera. Það má fara í orðaleiki af því tagi að þeir deili ekki kjörum með þjóðinni af því þeir séu hluti af opinbera lífeyriskerfinu en ekki hinu almenna. Það sé ekki nóg að vera að því leyti til með nákvæmlega sömu réttarstöðu og 20% vinnumarkaðarins eða þjóðarinnar. Þessu hefur hv. þingmaður öllu komið til skila og hann talar fyrir sínum sjónarmiðum. Ég hef reynt að útskýra af hverju við nálgumst málið með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, ég tel að það sé vel ígrundað, vel undirbyggt og vel rökstutt.