136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:33]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir þessa ágætu spurningu um hvort ég persónulega eða þingflokkur Vinstri grænna hafi skipt um skoðun í Evrópusambandsmálum. Nei, svo sannarlega ekki. Stefna Vinstri grænna er skýr og afdráttarlaus. Við teljum að okkur sé betur borgið utan Evrópusambandsins og teljum að hag okkar best borgið á grundvelli sjálfstæðrar stefnu hvað það varðar.

Það er ánægjulegt að heyra að þessi stefna virðist, samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum meðal þjóðarinnar, eiga þar yfirgnæfandi hljómgrunn. Í síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birtist 26. janúar sl., varðandi afstöðu til Evrópusambandsins kom fram að tæp 60% þjóðarinnar voru andvíg aðild að Evrópusambandinu. Þegar litið er á hvaða flokkar voru andvígir aðild voru það flestir úr flokki hv. þingmanns, Sjálfstæðisflokknum, Frjálslynda flokknum og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Þar var yfirgnæfandi meiri hluta fólks sammála í þeim efnum.

Varðandi hvort tekið sé á málefnum þessarar ríkisstjórnar starfar hún fyrst og fremst sem aðgerðaríkisstjórn til að taka á þeim bráða vanda sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins skildi eftir sig í efnahagsmálum. Hann er ærinn þannig að unnið er að þeim verkefnum (Forseti hringir.) þessa mánuðina en Evrópusambandið bíður um sinn.