136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:39]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Mér finnst það verðugt verkefni að ræða um afstöðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, þingflokksformanns Vinstri grænna, í Evrópumálum og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og ekki síður áherslur ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Það er algerlega óljóst hver stefna þessarar ríkisstjórnar er í Evrópumálum, að minnsta kosti af verkefnaskránni að dæma sem hún hefur skilað af sér, að öðru leyti en því að skila á einni skýrslu fyrir 15. apríl. Það er allt sem segir í þeirri verkefnaskrá um stefnu þessarar ríkisstjórnar í Evrópumálum.

Það væri áhugavert að heyra formann þingflokks Vinstri grænna tjá sig aðeins um þær yfirlýsingar sem fram hafa komið frá forsvarsmönnum Samfylkingarinnar varðandi Evrópumálin og samstarfið við Vinstri græna vegna þess að þeir hafa verið býsna yfirlýsingaglaðir um að í þessari ríkisstjórn hafi Ísland færst nær Evrópu en í ríkisstjórn með okkur sjálfstæðismönnum. Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. forsætisráðherra, lýsti þessu yfir. Hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Björgvin G. Sigurðsson og fleiri hafa lýst þessu sama og lagt ofuráherslu á að Ísland gangi í Evrópusambandið og lýst aðild að Evrópusambandinu sem eina bjargráðinu sem er út úr þeim vanda sem á okkur dynur.

Ég heyri að hv. þm. Mörður Árnason lifir í voninni um að Jón Bjarnason, skoðanabróðir minn hvað Evrópusambandið varðar, skipti um skoðun en það er alla vega ljóst að hv. þingmaður hefur skýrar meiningar í þessu.

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann, formann þingflokks Vinstri grænna: Telur hann að ríkisstjórnarsamstarfinu sé sjálfhætt ef Samfylkingin breytir ekki stefnu sinni í Evrópumálum og hættir tilraunum sínum til að reyna að breyta stefnu Vinstri grænna í þeim málaflokki? Hvað finnst hv. þingmanni, formanni þingflokks Vinstri grænna (Forseti hringir.) um það þegar hv. þm. Mörður Árnason kallar skoðanabræður hv. þm. Jóns Bjarnasonar þjóðernisbrjálæðinga? (Forseti hringir.) Það er ekki mikil virðing fyrir skoðunum flokksmanna í samstarfsflokknum (Forseti hringir.) frá hv. þm. Merði Árnasyni.