136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta er annar dagurinn í röð þar sem umræða um störf þingsins fer fram um Evrópumál. Ég veit ekki hvort sumir stjórnmálaflokkar á Alþingi þurfa að skerpa eitthvað á áherslum og stefnumálum sínum í þeim málaflokki. Það höfum við framsóknarmenn gert á nýafstöðnu flokksþingi okkar og það er alveg á hreinu að Framsóknarflokkurinn hefur sett mjög ákveðin og metnaðarfull skilyrði fyrir því ef við ætlum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Í þeim viðræðum munum við standa vörð um íslenskan landbúnað, íslenskan sjávarútveg og aðrar íslenskar auðlindir. Ég held reyndar að Framsóknarflokkurinn hafi gengið mun lengra í sínum skilyrðum en Samfylkingin, enda er það svo með okkur framsóknarmenn að við erum fyrir fram ekki orðin aðilar að Evrópusambandinu ólíkt mörgum ágætum félögum mínum í Samfylkingunni.

Hæstv. forseti. Þessi umræða er nokkuð fyrirsjáanleg og eins og ég sagði áðan er þetta annar dagurinn í röð þar sem stjórnmálaflokkarnir eyða dagskrárliðnum Störf þingsins í að karpa um Evrópumál. Ég held aftur á móti, herra forseti, að almenningur á Íslandi vilji líka heyra um hver stefna stjórnmálaflokkanna er gagnvart þeim bráða vanda sem blasir við heimilunum í dag. Hvernig ætlum við að takast á við það gríðarlega atvinnuleysi sem blasir við íslenskri þjóð? Hvernig ætla stjórnmálamenn að koma til móts við mjög skuldsett íslensk heimili? Hvernig ætlum við að koma til móts við alla þá námsmenn sem koma úr skóla á sumarmánuðum og við blasir atvinnuleysi hjá þúsundum manna? Ég held að fólk vilji heyra meira um þann bráða vanda sem við okkur blasir.

Ekki ætla ég að banna Evrópuumræðu hér en þessi umræða er svo fyrirsjáanleg vegna þess að stjórnmálaflokkarnir á Alþingi eru með stefnu í þessu og henni verður ekki breytt úr ræðustól Alþingis. Ég hvet því hv. þingmenn til að koma sér upp úr þessari kreppupólitík og fara að ræða um raunveruleg vandamál heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.