136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:46]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að við ræðum Evrópusambandsmálin hér á þinginu. En eins og umræðan hefur verið upp á síðkastið sér maður ekki að hún þjóni nokkrum tilgangi.

Við getum sett flokkana í fjóra hópa hvað varðar afstöðu til Evrópusambandsins. Vinstri grænir og frjálslyndir eru, ef maður má orða það þannig, neikvæðastir gagnvart Evrópusambandsaðild. Næstneikvæðastir eru sjálfstæðismenn en þó eru þar inni öfl sem eru jákvæð gagnvart Evrópusambandsaðild. Framsóknarmenn eru næstjákvæðastir af því að við höfum gert upp stefnu okkar og teljum að við eigum að skoða Evrópusambandsaðild, þ.e. ef við fáum ákveðin skilyrði uppfyllt. Svo er það fjórða grúppan sem eru samfylkingarmenn, þeir eru jákvæðastir gagnvart Evrópusambandsaðild og hafa talað af einurð fyrir aðild í langan tíma. Grúppurnar eru fjórar, það hefur ekkert breyst og breytist ekki í augnablikinu þannig að þessi umræða skilar svo litlum tilgangi.

Þessi umræða mun ekki breytast að neinu viti, virðulegur forseti, fyrr en eftir landsfundina hjá bæði Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum. Ef ég ætti að spá þá væri það kannski helst Sjálfstæðisflokkurinn sem eitthvað mun hreyfa sig á landsfundi sínum. Ég ber ekki mikla von í brjósti um að Vinstri grænir geri það miðað við hvernig maður skynjar pólitíkina á þeim bæ í augnablikinu. (Utanrrh.: Þeir eru í þerapíu.) Þannig að það er rétt að þessi umræða er mikilvæg. Þetta er stórpólitískt mál. En að ræða þetta undir þessum formerkjum hér í þinginu dag eftir dag þjónar engum tilgangi. Við verðum að bíða eftir því að landsfundirnir klárist og þá sjáum við betur hvort flokkarnir ætla eitthvað að hreyfa (Forseti hringir.) sig úr þessu.