136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þessi umræða er mjög athyglisverð þótt ég sé sammála hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að mikilvægustu verkefni þessa þings hljóti auðvitað að vera þau mál sem snúa að hagsmunum heimilanna og hagsmunum atvinnulífsins. (KaJúl: Eru gjaldeyrismál ekki hagsmunir heimilanna?) Og öllum er ljóst að upptaka evru einhvern tímann í framtíðinni, eftir 6–8 ár eða þar um bil, hjálpar okkur ekki út úr þeim vanda sem við erum í í dag. Við erum með stutt þing á þessu vori og við eigum að einbeita okkur að þessum brýnu málum. Evrópuumræðan á að sjálfsögðu rétt á sér en hún snýst ekki um þann bráðavanda sem við eigum við að glíma í dag.

Það eru hins vegar ýmsir áhugaverðir fletir sem hafa komið upp í þessari umræðu. Það var ánægjulegt að heyra að hv. þm. Jón Bjarnason, formaður þingflokks Vinstri grænna, er skýr í máli. Hann talar skýrt fyrir þeirri stefnu sem Vinstri grænir hafa í þessum málum. Það er hins vegar athyglisvert að hv. þm. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, taldi nauðsynlegt að koma hingað upp og túlka stefnu Vinstri grænna með einhverjum allt öðrum hætti en þeir gera sjálfir. Það vekur furðu og kallar á það að þingflokksformaður Vinstri grænna, hv. þm. Jón Bjarnason, taki af skarið um það hvort sú skýring sem hv. þm. Mörður Árnason setti fram hér áðan er í einhverju samræmi við raunveruleikann eða er bara einhver óskhyggja.

Í annan stað er það athyglisvert, bæði í dag og í gær, að það mál sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar telja brýnasta málið í íslenskum stjórnmálum, það allra brýnasta, er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar sem Samfylkingin styður. Það verður ekki á dagskrá næstu ríkisstjórnar ef áframhald verður á samstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna. Það held ég að sé nokkuð ljóst og enginn getur velkst í vafa um það (Forseti hringir.) eftir að hafa hlustað á hv. þm. Jón Bjarnason.