136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert eftir umræðurnar í gær þegar gengið var á sjálfstæðismenn um svör hvað varðar stefnu þeirra í Evrópumálum að þá koma þeir núna fram og reyna að velta boltanum áfram. Flokkurinn treystir sér með öðrum orðum ekki til að setja fram jákvæða stefnu í Evrópumálum heldur fyrst og fremst bið- og tafastefnu af þeirri sort sem hann hefur gert aftur og aftur.

Það verður að segjast eins og er að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur tekið mjög jákvæða og uppbyggilega stefnu til Evrópumála alveg frá því í haust á miðstjórnarfundi flokksins þar sem þeir mörkuðu þá stefnu að þeir ætluðu sér að taka afstöðu til þess máls á grundvelli málefnalegrar afstöðu og þeir teldu eðlilegast að þjóðin tæki afstöðu til þess máls. Það væri grundvallarviðhorf Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Þar er öðruvísi á málum haldið en af hálfu Sjálfstæðisflokksins sem virðist staðráðinn í því að leggjast flatur í veg þessa framfaramáls eins og í veg annarra framfaramála eins og við höfum séð hér í þinginu undanfarna daga og vikur. Við sjáum að ofurvextirnir eru að ríða atvinnulífinu á slig, við sjáum hvernig efnahagslegur óstöðugleiki er að fara með fyrirtækin í landinu og hver eru þá skilaboðin frá Sjálfstæðisflokknum til atvinnulífsins? Jú, það er hin sama kalda klakabrynja sem enn og aftur einkennir flokkinn — aðgerðaleysið, verkleysið og hugleysið sem hefur einkennt þennan flokk í Evrópumálum undanfarin missiri.

Ferðaþjónustufyrirtækin sjá fram á mikinn vanda, iðnfyrirtækin sjá fram á mikinn vanda, og hverju svarar Sjálfstæðisflokkurinn atvinnulífinu? Engu. Við ætlum að halda áfram að skella skollaeyrum við þörfum atvinnulífsins, það eru skilaboð Sjálfstæðisflokksins. Við ætlum að halda áfram (Forseti hringir.) að humma fram af okkur mesta þjóðþrifamálið sem við stöndum frammi fyrir í stefnumörkun (Forseti hringir.) til lengri tíma litið.