136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í umræðu um efnahagsmál á Íslandi skiptir miklu máli hvernig við sjáum fram á að geta nýtt auðlindir okkar. Einkum og sér í lagi eru það orkuauðlindirnar sem eru til umræðu því að þær gefa okkur heilmikla von um að hér megi byggja upp öflugt nútímasamfélag sem getur veitt borgurum þessa lands mikil og góð lífskjör.

Þess vegna skiptir máli hvaða afstöðu íslensk stjórnvöld taka í umræðum á alþjóðavettvangi þegar kemur að loftslagsmálum og þeim skuldbindingum sem ríki gangast undir á þeim vettvangi. Fram undan er fundur í Kaupmannahöfn í haust þar sem teknar verða lykilákvarðanir sem varða það hvernig verður unnið úr framhaldinu af Kyoto-samkomulaginu sem Íslendingar skrifuðu undir á sínum tíma.

Þetta er lykilatriði fyrir okkur Íslendinga. Í Kyoto-samningnum náðum við fram hinu svokallaða íslenska ákvæði sem gerði okkur kleift að nýta betur okkar endurnýjanlegu og hreinu orkuauðlindir. Íslenska ákvæðið var í raun og veru viðurkenning alþjóðasamfélagsins á þeim árangri sem við Íslendingar höfum náð í umhverfismálum og sérstaklega í orkumálum. Raunverulega er hér ekki um að ræða neitt séríslenskt ákvæði, þetta ákvæði nær til miklu fleiri landa en Íslands, þetta nær til smárra hagkerfa, hagkerfa sem losa undir 0,05% af heildarútblæstri í heiminum. Í ákvæðinu er gerð krafa um endurnýjanlega orku, það er gerð krafa um að notkun þessarar orku leiði til samdráttar í losun á heimsvísu, það er gerð krafa um að notuð sé besta fáanlega tækni og það er gerð krafa til þess að bestu umhverfisvenjur séu notaðar við framleiðsluna. Með öðrum orðum er þessi nálgun í hinu svokallaða íslenska ákvæði, sem í eðli sínu er alþjóðleg, þannig hugsuð að það eigi að leiða til betri niðurstöðu fyrir ekki bara Ísland, heldur fyrir allan heiminn.

Vissulega er víða hægt að nýta vatnsauðlindir og gufu til þess að knýja t.d. álver, það er ekki bara hér á Íslandi. Staðreyndin er samt sú að stór hluti af iðnframleiðslu heimsins, stór hluti af álframleiðslu, stór hluti af þessum þungaiðnaði fer fram með kolum og öðrum jarðefnum sem menga mjög mikið. Það er umhverfisleg ástæða fyrir okkur Íslendinga að sækja áfram þetta ákvæði.

Aðalatriðið er að þetta skiptir mjög miklu máli fyrir efnahagslíf okkar í dag. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli að íslensk stjórnvöld sendi þau skilaboð, ekki bara til annarra ríkja heldur líka til viðskiptalífsins alls, að við ætlum okkur að sækjast eftir því að hafa þá möguleika sem felast í hinu svokallaða íslenska ákvæði. Þetta er alveg gríðarlega mikilvægt fyrir þjóð sem stendur frammi fyrir þessu mikla atvinnuleysi, um 15.000 manns nú þegar og fer vaxandi, að við sendum mjög skýr skilaboð út, bæði hér innan lands og til alþjóðasamfélagsins. Þess vegna skiptir miklu máli að íslenskir ráðamenn sæki af festu hið svokallaða íslenska ákvæði.

Ég geri mér grein fyrir því að ýmsar breytingar eru að verða á því hvernig menn halda á loftslagsmálum og hvernig er t.d. farið með viðskipti um loftslagsheimildir. Við vitum að Evrópusambandið hefur komið upp sínu viðskiptakerfi sem ég held að sé um margt skynsamlegt af því að það felur það í sér að menn geti keypt og selt losunarheimildir og þar með kemur verð á slíka mengun sem er gott fyrir hagkerfið og gott fyrir umhverfisverndina. Það er líka mikilvægt að horfa til þess að þessi sérstaða okkar Íslendinga sé viðurkennd, hversu langt við höfum náð fram úr öðrum þjóðum þegar kemur að endurnýjanlegri orku, hversu langt við höfum náð fram yfir t.d. Evrópuþjóðirnar og að við höldum áfram að eiga þann möguleika að nýta orkuauðlindir okkar, að við þrengjum ekki að okkur sjálfum.

Það kostaði mikla vinnu sem m.a. hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, vann fyrir hönd Íslands, að sækja þetta ákvæði. Við megum síðan ekki glata því með því að sækja það ekki fast áfram. Hér er um að ræða, virðulegi forseti, spurninguna um það hvaða forræði við höfum í raun og veru á náttúruauðlindunum. Það er eitt að gera þá kröfu að við eigum að fá að stjórna okkar eigin auðlindum og að þannig þurfi það að standa í lögum. Ef við síðan afsölum okkur raunverulega nýtingarmöguleikum, ef við afsölum okkur möguleikum á því að nýta orkuna í fallvötnunum og iðrum jarðar með því að gangast undir skilyrði sem eru of ströng fyrir okkur Íslendinga, ef við afsölum okkur þessu erum við um leið að afsala okkur forræði yfir þessum mikilvægu auðlindum. Þar með erum við að draga úr möguleikum íslensku þjóðarinnar til að vinna sig úr þeim miklu efnahagsvandamálum sem nú eru fram undan.

Ég skora því á hæstv. umhverfisráðherra að sinna þessu máli af miklum krafti. Ég veit að hún hefur þann kraft (Forseti hringir.) til að bera og þennan kraft á hún að nýta þjóðinni allri til heilla, bæði í bráð og lengd.