136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:09]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Samningaviðræður um framhald Kyoto-bókunarinnar hafa staðið yfir frá 2006. Í Balí árið 2007 náðist samkomulag um að útvíkka þær viðræður með þátttöku Bandaríkjanna sem hafa staðið utan Kyoto-samkomulagsins hingað til. Viðræðurnar eiga að leiða til nýs bindandi samkomulags um framtíðaraðgerðir í loftslagsmálum á fundi í Kaupmannahöfn í desember nk.

Í Kaupmannahafnarsamkomulaginu er gert ráð fyrir að það verði nýtt markmið um niðurskurð í losun gróðurhúsalofttegunda eftir árið 2012, en eins og allir vita er markmið loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í samningnum sem að öllum líkindum verður gerður í Kaupmannahöfn verða líka ákvæði um að auka alþjóðlega samvinnu um að draga úr losun, m.a. með aukinni aðkomu stærstu iðnvæddu þróunarríkjanna sem hafa ekki tölulegar skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni.

Stefna íslenskra stjórnvalda hefur verið í þróun samhliða þessu samningaferli. Samkvæmt núgildandi stefnu, sem samþykkt var af þáverandi ríkisstjórn í ársbyrjun 2007, er stefnt að því að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50–75% fram til ársins 2050 miðað við árið 1990. Það var einnig samþykkt í þeirri ríkisstjórn að það ætti að stefna að því að draga úr hækkun meðalhita í lofthjúpi jarðar þannig að hann aukist ekki meira en um 2°C frá því sem hann var fyrir iðnbyltingu. Til að ná því marki þarf tvennt, virðulegi forseti, það þarf að tryggja það að þróuð ríki dragi úr losun um 25–40%, miðað við 1990, fyrir 2020 og það þarf að tryggja að þróunarríkin byrji að takmarka aukningu losunar hjá sér. Þetta eru tvö meginmarkmið. Með þessa stefnu að leiðarljósi hafa Íslendingar skipað sér í flokk með öðrum ríkjum sem vilja taka af festu á loftslagsvandanum, þar með talið Evrópusambandsríkjunum.

Í lok síðasta árs var skipuð samninganefnd með þátttöku sjö ráðuneyta. Þá var umhverfisráðherra falið að fara með fyrirsvar Íslands í samningaferlinu og koma fram fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands á alþjóðavettvangi, en nefndin er undir forustu sendiherra aðalsamningamanns í utanríkisráðuneytinu. Markmið íslenskra stjórnvalda, sem ég var að lýsa, er leiðarljós þessarar samninganefndar, einnig það að íslenskt atvinnulíf eigi að fá að búa við sambærilegt umhverfi hvað loftslagsmál varðar og atvinnulíf í Evrópusambandinu. Til viðbótar hefur Ísland lagt fram tillögu um að endurheimt votlendis verði viðurkennd aðferð til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda.

Allt þetta sem ég hef nú talið upp var ákveðið í tíð fyrri ríkisstjórnar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég styð þessi markmið enda fara þau saman við markmið mín og míns flokks í loftslagsmálum og náttúruvernd. Þetta eru almenn markmið stjórnvalda en hv. þm. Illugi Gunnarsson vill vita sérstaklega hvernig fari með hið svokallaða íslenska ákvæði, ákvörðun 14/CP.7 eins og það heitir á lagamáli. Íslenska ákvæðið, sem ég hef reyndar alltaf talað um sem undanþáguákvæði því að það er undanþága frá almennum heimildum og frá almennu markmiði loftslagssamningsins, heimilar eins og kunnugt er að bókfæra losun frá nýrri stóriðju á Íslandi síðan 1990 utan almennra skuldbindinga Íslands upp að ákveðnu marki sem nemur losun 1,6 milljóna tonna af koldíoxíði á ári.

Þegar framtíðin er skoðuð er algjörlega ljóst, virðulegi forseti, að umhverfi stóriðjunnar hefur breyst og er að breytast mjög hratt núna frá því sem var 2002 þegar Marrakesh-ákvæðið fór í gegn, þ.e. undanþáguákvæði Íslands sem var samþykkt í Marrakesh 2002. Stóriðjan kemur til með að falla undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir eftir árið 2012 og Alþingi hefur samþykkt að við verðum aðilar að því viðskiptakerfi. Það sem mun breytast er að árið 2012 verður flugrekstur tekinn inn undir þetta viðskiptakerfi og samkvæmt nýsamþykktum ákvörðunum ESB mun framleiðsla áls og járnblendis falla undir þetta viðskiptakerfi árið 2013.

Nú ber að hafa það í huga að samningar ganga eftir tveimur brautum í þessum efnum, annars vegar eftir braut loftslagssamningsins og hins vegar eftir braut Evrópusambandsins. Þetta er sem sagt tvöfalt kerfi og það er erfitt fyrir okkur að ætla að búa við bæði kerfin. Núna er hjá samninganefndinni verið að skoða hvort kerfið við eigum að velja, hvort við eigum að fara einhliða undir kerfi loftslagssamningsins eða hvort við eigum að taka þátt í kerfi Evrópusambandsins.

Ég sé að það sneyðist um tíma minn, hæstv. forseti. Ég hef meira að segja, mín hugmynd og samninganefndarinnar er sú að það verði látið reyna á það að Íslendingar fari undir hatt Evrópusambandsins (Forseti hringir.) sem þýðir að við tökum á okkur sambærilegar skuldbindingar um losun og Evrópusambandið er að taka á sig. Það gildir líka frá stóriðju og þá erum við að tala um 15–20% samdrátt á næstu 10 árum.