136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:17]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Loftslagsbreytingar eru mál málanna í dag gagnvart umhverfismálunum og það er svo grátlegt að hlusta á þessa umræðu vegna þess að þetta svokallaða íslenska ákvæði er gott fyrir lofthjúpinn. Þess vegna fengum við það samþykkt. Hvernig halda menn að við hefðum náð þeim árangri ef það væri vont fyrir lofthjúpinn? Hér er öllu snúið á hvolf, virðulegur forseti.

Það kostaði geysilega mikla vinnu að ná ákvæðinu í gegn, geysilega mikla. Það þurfti að tala við hvern einasta umhverfisráðherra sem maður komst í tæri við á þeim tíma til að útskýra stöðu okkar. Umhverfisráðherrar annarra ríkja skildu málið, þeir skildu að Ísland var með sérstöðu af því að hér er endurnýjanleg orka. Þess vegna er miklu betra að framleiða t.d. ál hér en annars staðar þar sem ekki er endurnýjanleg orka. Það er reyndar átta sinnum betra fyrir lofthjúpinn þannig að íslenska ákvæðið er gott fyrir lofthjúpinn. Þess vegna er það svo grátlegt að vinstri grænir skuli vinna gegn þessu ákvæði. Af hverju eru ekki vinstri grænir uppteknir af því að hugsa um það sem er gott fyrir lofthjúpinn?

Síðasta ríkisstjórn var klofin í málinu. Fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sagði: Við skulum vinna að því að halda íslenska ákvæðinu. Þórunn Sveinbjarnardóttir, hv. þingmaður og fyrrverandi umhverfisráðherra, sagði á umhverfisþingi: Engar undanþágur fyrir Ísland, ekkert íslenskt ákvæði. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem var og er hæstv. ráðherra sagði, þegar fundurinn var í Balí: Við skulum ekki vera að sækjast eftir þessu á þessu stigi af því að það er ekki verið að ræða áherslumál ríkja þar. Hann sagði pass, sá hæstv. ráðherra.

Við erum orðin of sein að mínu mati. Síðasta ríkisstjórn klúðraði þessu, sjálfstæðismenn vildu fara þá leið sem við höfum farið, halda í íslenska ákvæðið. Það vildi Samfylkingin ekki þannig að sjálfstæðismenn brunnu inni með þetta mál. Samfylkingin réði ferðinni. Núna er fundur í lok ársins í Kaupmannahöfn og að mínu mati er orðið of seint að fara af stað til að reyna að ná íslenska ákvæðinu. (Forseti hringir.) Það þarf svo mikla vinnu til að viðhalda því og það er mitt mat að við séum orðin of sein, því miður, virðulegur forseti.