136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það er brýnt að við ræðum þessi mikilvægu mál og sérstaklega undirbúning fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn því að við erum um leið að varða ákveðna valmöguleika okkar Íslendinga til framtíðar þegar kemur að efnahags- og atvinnusköpun hér á landi.

Það má, og við vitum það, engin þjóð skerast úr leik á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Við eigum að setja okkur háleit markmið. Þess vegna verður að gera ríkar kröfur til þeirra efnahagskerfa heims sem stærst eru og setja mest af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. Í því sambandi ber að nefna Bandaríkin, Evrópusambandið, Kína og stóru þróunarlöndin í Suður-Ameríku og Asíu. Hlutur Íslands í þeim efnum er vissulega agnarsmár en auðvitað verðum við Íslendingar og eigum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar, annað væri firra.

Hins vegar er einnig brýnt að við verjum hagsmuni okkar á þessu sviði gagnvart öðrum en það vill svo til að þeir fara saman við hagsmuni annarra sem vilja draga úr útblæstri. Okkar takmörkuðu en mikilvægu sérhagsmunir fara saman við heildarhagsmuni þjóðanna á sviði umhverfismála. Það er hins vegar lítill skilningur á þessu innan vinstri stjórnarinnar og ég er smeyk um að það skilningsleysi í þessum málum muni síðan skaða hagsmuni okkar til lengri tíma litið.

Á Íslandi má og er möguleiki á að framleiða nauðsynlega vöru á margfalt hreinni og hagkvæmari hátt en víða annars staðar með því að nota þær endurnýjanlegu orkulindir sem við búum að. Það væri mikil skammsýni og má ekki gerast að við semjum frá okkur það takmarkaða svigrúm sem felst í Kyoto-bókuninni. Miklu nær væri að sækjast eftir frekari heimildum af sama toga og annað, t.d. á grundvelli svokallaðrar geiranálgunar, og ég segi: Það er ekki of seint.

Ég treysti því, herra forseti, að allir ábyrgir aðilar á vettvangi stjórnmálanna sjái til þess að svo verði gert.