136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:23]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. umhverfisráðherra lagði áherslu á það í máli sínu að Ísland tæki fullan þátt í að axla ábyrgð með öðrum þjóðum á því að verja og vernda líf á jörðinni. Það verður ekki horft fram hjá því að þær miklu loftslagsbreytingar sem hafa nú átt sér stað á undanförnum árum og áratugum stefna lífríki víða á hnettinum í óvissu, tvísýnu og jafnvel hættu.

Okkur ber því skylda til að taka þar saman höndum og snúa vörn í sókn. Ísland er ekki vanþróað land og þó að okkur finnist hart í ári nú á Íslandi er íslensk þjóð og íslenskt samfélag engu að síður eitt þróaðasta og sterkasta samfélag í heimi. Við getum þess vegna ekki farið að krefjast einhverrar sértækrar meðferðar vegna þess að hér sé svo hryllilegt ástand. Nei, við eigum að axla alþjóðlega ábyrgð í þessum efnum. En vandinn er stór, ég vitna hér í frétt sem birtist nýlega, þann 13. febrúar sl., þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Gríðarlegar breytingar eru að verða á fiskstofnum í höfunum vegna loftslagsbreytinga. Spáð er allt að helmingsfækkun í þorskstofnum undan Atlantshafsströnd Norður-Ameríku fyrir árið 2050.“

Skiptir þetta okkur ekki líka máli, breytingar á samsetningu og stöðu fiskstofna hér í norðurhöfunum (Forseti hringir.) eða í kringum Ísland? Jú, þetta hefur líka áhrif á atvinnu hjá okkur. Ábyrgð okkar í loftslagsbreytingum og að standa vörð um lofthjúpinn hvað þetta varðar skiptir okkur öll máli og þar eigum við að axla ábyrgð.