136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:26]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn raða sér í kringum þetta fræga ákvæði, hvað sem maður á að kalla það, kannski er best að kalla það Marrakesh-ákvæðið eins og hæstv. umhverfisráðherra gerði áðan og nota það sem fána í tali til þjóðarinnar. Að sumu leyti er það auðvitað ósköp eðlilegt. Nú eru hins vegar þeir tímar að það er ákaflega ólíklegt að uppröðun stjórnmálamanna og -flokka í kringum þetta hafi nokkuð að segja því að það er ákaflega ósennilegt að þetta ákvæði verði með nokkrum hætti endurnýjað. Og þótt ég sé ekki sammála þeim rökum sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir taldi hér fram áðan held ég að ég sé sammála um niðurstöðuna, að það sé best að gleyma þessu máli. Enda er mjög umdeilanlegt hversu endurnýjanleg sú orka er sem þarna var lögð til grundvallar þótt vissulega sé hún mestöll betri en sú orka sem ýmsir grannar okkar nota.

Það er, held ég, kominn tími til þess fyrir Íslendinga almennt, hvað sem einstökum málum líður, að gleyma undanþágu- og undantekningartilveru sinni. Ég harma það að menn skuli einmitt nú þegar tækifæri gefst til að reisa nýtt Ísland, kannski í stíl við það sem við þekktum hér áður, meira en að undanförnu, skuli menn taka upp á þessu, annars vegar umræðu um þetta, hins vegar umræðu um hvalveiðar og annan útúrboruhátt af okkar hálfu.

Mig furðar hins vegar ekki að upp á þessu skuli taka hv. þm. Illugi Gunnarsson sem hefur nú fundið maka sinn hér á þinginu í efasemdum um vísindalegan grunn kenninganna um loftslagsvá og -breytingar þar sem er hv. þm. Ragnheiður Ólafsdóttir. Illugi hélt fram (Forseti hringir.) alveg þangað til hann varð þingmaður að þetta (Forseti hringir.) væri allt saman vitleysa og stafaði af gosum í sólinni og ekki er enn alveg ljóst hvort hann hefur breytt um skoðun.