136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:30]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir sjónarmið þeirra sem hér hafa talað og bent á að hið svokallaða íslenska ákvæði er almennt ákvæði í þágu lofthjúpsins en ekki í þágu Íslendinga. Hins vegar geta Íslendingar á grundvelli ákvæðisins lagt sitt af mörkum til að mengun í lofthjúpnum verði minni en ella og haft af því þann ávinning að geta verið með meiri stóriðju en ella. Það er ekkert slæmt og ekki þarf að afsaka það eða að berjast fyrir að kasta því frá sér.

Mér er algjörlega óskiljanlegt að íslenskir stjórnmálaflokkar skuli vera til sem hafa þá stefnu að rýra möguleika Íslendinga til atvinnuuppbyggingar, jafnvel þótt þeir möguleikar séu heiminum í heild til góða. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja þau viðhorf, nema með því að skýra þau á þann veg að hjá þeim sem þannig hugsa ráði för svo mikil andúð þeirra á stóriðju að þeir vilja skaða hagsmuni lands og þjóðar til að ná fram árangri í þeirri andúð sinni.

Virðulegur forseti. Ég get ekki verið sammála því að vinna á þann veg. Ég get alveg skilið sjónarmið þeirra sem eru þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera með álversframleiðslu og annað slíkt, ég er ekki sammála þeim, en það eru málefnaleg sjónarmið. En mér finnst ekki málefnalegt að láta þá afstöðu skaða hagsmuni Íslendinga og heimsins.

Ég vil svo segja að lokum, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra verður að gera betur grein fyrir en hún gerði í ræðu sinni hversu mikils samdráttar hún krefst af íslensku efnahagskerfi á næstu tíu árum ef sjónarmið hennar ná fram að ganga.