136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur loftslagsráðstefnu í Kaupmannahöfn.

[14:35]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu sem þó er á örlitlum villigötum. Nú tala menn um að varðveita Kyoto-ákvæðið, íslenska undanþáguákvæðið, eða viðhalda því. Nú er það svo að árið 2012 munum við hafa nýtt það ákvæði nokkurn veginn upp í topp. Enginn þarf að láta sér detta í hug að öll sú stóriðja sem hefur fengið undanþágu samkvæmt því ákvæði hætti 2012. Sú stóriðja heldur að sjálfsögðu áfram þannig að þær losanir sem við höfðum heimildir fyrir samkvæmt undanþáguákvæðinu halda áfram.

Hins vegar eru engar líkur á því að við fáum auknar heimildir til losunar fyrir stóriðju. Frá og með samkomulaginu sem gert verður í Kaupmannahöfn verður öllum gert að draga saman. Stóriðju verður gert að draga saman í ríku löndunum, þróuðu ríkjunum, og almennum heimildum verður líka þröngur stakkur skorinn.

Svíar taka við formennsku í Evrópusambandinu í júlí. Þeir koma til með að setja á oddinn að fram til 2020 sýni Evrópusambandsþjóðirnar — og Íslendingar þar meðtaldir, ef við ætlum að vera aðilar að viðskiptakerfinu — niðurskurð sem nemur 15–20% á næstu tíu árum. Í ráðuneytinu er nú unnið að aðgerðaáætlun sem kemur til með að byggja á grundvelli svokallaðrar Brynhildarskýrslu, sem er væntanleg alveg á næstunni, og segir okkur hvaða möguleika við höfum til að draga úr losun, en þeir eru fjölmargir. Möguleikarnir eru í samgöngum, fiskiskipaflotanum okkar, almennum iðnaði, þeir eru mjög víða, en ekki í nýrri stóriðju. Ergó: Við komum til með að þurfa áfram að losa þessi 1.600 þús. tonn sem ákvæðinu nemur en við fáum ekki aukningar. Það er mergurinn málsins.

Að öðru leyti vil ég bara segja að við Íslendingar þurfum að nýta orkukosti okkar með ábyrgum hætti og það gerum við ekki með aukinni mengandi stóriðju heldur annars konar atvinnuuppbyggingu sem stenst kröfur sjálfbærrar þróunar.