136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

fjárhagsvandi heimila.

297. mál
[14:44]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helgu Sigrúnu Harðardóttur fyrir að vekja máls hér á þingi á vanda heimilanna. Það er náttúrlega fyrst og síðast hlutverk okkar hér á þessum síðustu dögum þingsins fram að kosningum að ræða þau mál og koma með lausnir á þeim.

Þúsundir heimila glíma við gríðarlega miklar skuldir og eru í miklum greiðsluerfiðleikum. Ég hef heyrt að ríkisbankarnir séu mjög stirðbusalegir gagnvart skjólstæðingum sínum sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Á sama tíma grípur hin opinbera stofnun, Íbúðalánasjóður, til fjölmargra aðgerða til að hjálpa skjólstæðingum sínum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að ríkisbankarnir muni í sama mæli og Íbúðalánasjóður koma til móts við þarfir skjólstæðinga sinna eða ætla menn að vera í einhverri hörku á næstu vikum og mánuðum gagnvart fólki sem hefur misst vinnuna og er með lán sem hafa hækkað gríðarlega? (Forseti hringir.) Þetta er mjög mikilvægt og við framsóknarmenn teljum að (Forseti hringir.) það þurfi að koma til móts við vanda þessara heimila.