136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

hlutur kvenna í stjórnmálum.

301. mál
[14:57]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessa fyrirspurn um hvort ég hyggist grípa til átaksverkefna eða annarra úrræða til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Það kom mér ekki á óvart að hv. þingmaður mundi spyrja þessarar spurningar því að hún hefur látið sig þessi mál verulega varða hér á þingi.

Ég deili svo sannarlega áhyggjum hennar um stöðu kvenna á næstunni. Á þeim stutta tíma sem ég hef verið í embætti ráðherra og ég hef til verka fram að kosningum er ljóst að mér gefst hvorki tími né tækifæri til að efna til umfangsmikilla aðgerða eða sérstakra átaksverkefna til að auka hlut kvenna í stjórnmálum, hvað þá áður en flokkarnir ákveða framboðslista sína. Þó vil ég upplýsa hér að ég hef þegar sent formönnum allra stjórnmálaflokkanna bréf með sérstakri hvatningu um að þeir leggi sig fram um það við uppröðun á framboðslista fyrir alþingiskosningar að hlutur kynjanna sé sem jafnastur. Þar er ábyrgð þeirra mjög mikil. Ég tel það hafið yfir allan vafa að í efnahagsumrótinu síðustu mánuði hafi komið fram hávær krafa um að jafna beri hlut kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, ekki síst í lýðræðislega kjörnum stofnunum þjóðarinnar eins og á Alþingi.

Margir telja ójafnræðið sem birtist í skertum hlut kvenna við stjórnvölinn hér á landi geti beinlínis hafa átt þátt í þeim þrengingum sem að okkur steðja nú. Allir stjórnmálaflokkar þurfa að hlusta á og bregðast við þeirri gagnrýni sem hefur verið færð fram af fjölda fólks í samfélagi okkar. Krafan um endurnýjun í stjórnmálum er ekki síst krafa um að konur fái þann hlut á Alþingi sem þeim ber.

Á sama tíma og konur hvaðanæva að úr litrófi stjórnmálanna hafa fagnað því að nú leiðir kona í fyrsta skipti ríkisstjórn á Íslandi og að hlutur kynja í ríkisstjórn er einnig í fyrsta skipti jafn, er það samt enn svo að það hallar mjög á konur í stjórnmálalífi þjóðarinnar og á Alþingi. Ég tel það því tvímælalaust eitt af verkefnum stjórnvalda á sviði jafnréttismála að efna reglulega til aðgerða og verkefna til að stuðla að því að jafna hlut kynjanna í stjórnmálum allt þangað til við teljum að málið sé í öruggri höfn. Ég tel reyndar að stjórnvöld hafi skuldbundið sig til þess.

Fyrirspyrjandi, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, er eins og flestum er kunnugt ötull baráttumaður fyrir þessu verkefni, að auka hlut kvenna á þingi. Hún nefndi í ræðu sinni þingmál sitt sem gerði það að verkum að skipuð var nefnd sem vann mjög gott verk og stóð að auglýsingaherferð sem vakti athygli um allan heim, verð ég að segja. Verkefni þessarar nefndar hafa komist í sögubækur í Bandaríkjunum sem kennsluefni í markaðssetningu og auglýsingagerð í virtum bandarískum háskólum. Það hef ég frétt.

Ég vil rifja upp þessa vinnu fyrir alþingiskosningarnar 1999 vegna þess að þá jókst hlutur kvenna á Alþingi úr 25 í 35%, eins og hv. þingmaður nefndi áðan. Aldrei áður hafði hlutur kvenna á þingi aukist jafnmikið eða úr 16 konum í 22. Mesta stökkið milli kosninga áður var í kosningunum 1983 þegar Kvennalistinn bauð fyrst fram en þá fjölgaði konum á Alþingi úr þremur í níu.

Aðgerðir þessarar nefndar, um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum, hafði því örugglega mikil áhrif á það að hlutur kvenna varð jafnstór 1999. Þessi árangur var því miður ekki viðvarandi að öllu leyti. Í næstu kosningum þar á eftir eða 2003 var hryggilegt bakslag en þá fór hlutur kvenna úr 35% í 30%. Eftir síðustu kosningar, 2007, jókst hann lítillega aftur eða fór upp í 31,7%.

Í þessu sambandi er jafnframt umhugsunarefni hvernig hlutur kvenna eykst jafnan þegar líða tekur á kjörtímabilin. Sem dæmi má nefna að þegar þing kom saman haustið fyrir þingkosningarnar 2007 áttu 23 konur sæti á Alþingi sem nam 37% þingsæta. Athyglisvert er jafnframt að í lok desember sl. var staðan aftur orðin sú sama og hún var haustið 2006, þ.e. 37% þingsæta voru skipuð af konum.

Virðulegi forseti. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að við verðum stöðugt að halda uppi kröfunni um jafnan hlut kynjanna. Þetta sýnir líka að sá árangur sem getur náðst á einum tímapunkti getur tapast aftur ef við erum ekki á varðbergi. Þess vegna vil ég skírskota til ábyrgðar stjórnmálaflokkanna nú þegar í hönd fer hjá þeim að raða á framboðslista. Þeir verða að svara kalli tímans, þeir verða að svara ákalli almennings um virkara lýðræði, (Forseti hringir.) þeir verða að tryggja jafnan hlut kvenna og karla á framboðslistum sínum og þá einnig í örugg sæti.