136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

hlutur kvenna í stjórnmálum.

301. mál
[15:13]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur einungis einn karlmaður sem er kjörinn þingmaður tekið til máls. Það var karlmaður sem er varamaður konu þannig að eðlilegt er að hann blandi sér inn í. Ég ætla hins vegar að gera örstutta athugasemd við þau ummæli sem hv. þm. Mörður Árnason hafði uppi áðan að kynjahlutföllin væru miklu verri í landsbyggðarkjördæmunum en í kjördæmunum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ekki rétt. Ég bið hann að kynna sér sérstaklega kynjaskiptinguna í Norðausturkjördæmi. Ég hef langa reynslu af því að vinna í pólitík og jafna kynjum á listum, jafnt fléttulistum sem opnum prófkjörum, og hef áhyggjur af í þessari umræðu og því sem stendur yfir núna hvernig menn ætla að reyna að tryggja með einhverjum ákveðnari hætti en gert er í dag í reglum um kjör í því sem kallað er persónukjör. Ég hvet hv. þingmenn til að leiða hugann að því í samræmi við þá umræðu sem hér (Forseti hringir.) hefur átt sér stað að gaumgæfa hvernig tekið verður á þessum þáttum í hugmyndum varðandi persónukjör til Alþingis.