136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

hlutur kvenna í stjórnmálum.

301. mál
[15:18]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Þetta er langtímaverkefni, það þarf greinilega átaksverkefni og það þarf greinilega að bíta í skjaldarrendur. (Gripið fram í.) Ég hvet menn til að gera það.

Hv. þm. og fyrirspyrjandi Siv Friðleifsdóttir kallaði eftir því að Jafnréttisstofa mundi beita sér í þessum efnum. Ég hef þegar rætt við jafnréttisstýru, Kristínu Ástgeirsdóttur, um þetta mál og ég efast ekki um að þar verður okkur lagt lið í þessari baráttu.

Mig langar aðeins að nefna það vegna þess að við höfum verið að fara yfir stöðuna, að það er ekki skýring á því að bakslag varð í síðustu tvennum kosningum að ekki hafi nægilega margar konur gefið kost á sér, því að fyrir alþingiskosningarnar 2003 voru 43% frambjóðenda konur og fjórum árum síðar fjölgaði þeim upp í 47%. En á milli þessara tvennra kosninga höfðu líkurnar á að kona sem væri í framboði og næði kjöri til Alþingis minnkað.

Það er líka rétt sem kom fram í umræðunni að það virðist sem konur af landsbyggðinni eigi erfiðara uppdráttar en konur á höfuðborgarsvæðinu, það sýna niðurstöður kosninga. Stjórnmálaflokkarnir þurfa að huga alvarlega að þessu. Við síðustu alþingiskosningar komu flestar konur úr Suðvesturkjördæmi, þar voru jafnmargir karlar og konur. Engin kona náði kjöri úr Norðvesturkjördæmi og ein kona náði kjöri í Suðurkjördæmi. Mér er þó ánægja að upplýsa að eins og allir vita hér hefur konum í þessum síðastnefndu tveimur kjördæmum fjölgað um þrjár á yfirstandandi kjörtímabili.

Þarna er svo sannarlega verk að vinna, við þurfum öll, bæði karlar og konur, (Forseti hringir.) að leggjast á eitt til að rétta af kúrsinn (Forseti hringir.) í þessum málum því að við verðum að leiðrétta þennan lýðræðishalla sem við búum við. Þetta er ekki boðlegt.