136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

málefni aldraðra.

303. mál
[15:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ólafsdóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil beina spurningu minni til hæstv. félagsmálaráðherra og spyrja hvað hún og ríkisstjórnin hyggist gera í málefnum aldraðra. Þá á ég við vistunarúrræði því að augljóst er að það verður að bregðast við þeim mikla vanda sem snýr að langtíma- og skammtímavistun aldraðra strax. Málin eru í algjörum ólestri hvað varðar þennan hóp einstaklinga sem búa einir og geta ekki lengur séð um sjálfir. Víða er algjört neyðarástand hjá þessum einstaklingum og fjölskyldum þeirra og það er þjóðinni til skammar hvernig búið er að öldruðum í dag.

Eftir gjaldþrot Heilsuverndarstöðvarinnar ehf., sem ég held að sú stofnun hafi heitið, er ekki lengur um hvíldarinnlögn þar að ræða en þjónustan þar var til fyrirmyndar fyrir þá sem nutu hennar. Það eru mjög takmörkuð rými á Landakoti og Grund á Reykjavíkursvæðinu sem anna engan veginn eftirspurn að því er öldrunarlæknir segir mér. Langtímavistunarrými eru allt of fá og einstaklingum sem beðið hafa eftir varanlegri vistun í mörg ár og búsettir eru á suðvesturhorninu er jafnvel bent á að þeir geti fengið pláss á dvalarheimili á Ísafirði, í Vík í Mýrdal eða jafnvel á Austfjörðum sem dæmi eru um. Fyrir einstaklinga og aðstandendur sem ekkert þekkja til á þessum stöðum er dónaskapur að bjóða fólki upp á slíkt að mínu mati. Ég er ekki að lasta nein dvalarheimili, langt í frá, þau eru örugglega til fyrirmyndar. En það er ekki mannsæmandi í dag fyrir aldraðan einstakling að vera vistaður langt frá sinni heimabyggð og þar sem hann þekkir ekkert til.

Þá má skoða mannlega þáttinn, þar sem aðstandendur eiga litla eða jafnvel enga möguleika á að heimsækja jafnvel móður eða föður við aðstæður sem fólk á suðvesturhorninu þekkir ekki til, veður, ófærð, mjög langar vegalengdir, jafnvel löng bið eftir flugi, ef um enn lengri vegalengd er að ræða. Bara að geta ekki heimsótt einstaklinginn sem oftast, er að mínu mati mannréttindabrot.

Ég spyr: Ætlar núverandi ríkisstjórn að beita sér fyrir varanlegri lausn þessara mála eða fylgja stefnu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar, sem hafa setið meira og minna við stjórnvölinn síðastliðin 18 ár, og gera sem minnst, helst ekkert eða ekki neitt fyrir gamla fólkið okkar? Ef ekki, hvaða stefnu hefur heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin í þessum málum?

Þingmenn allra flokka á Alþingi ættu að muna og muna það vel að þeir eldast líka, það er lögmálið, svo það kemur sennilega að þeim að njóta slíkrar þjónustu í framtíðinni. Brettum upp ermar og sameinumst um að byggja mannsæmandi aðstöðu fyrir aldraða eins fljótt og auðið er og (Forseti hringir.) ekki seinna en strax. Ég vil minna ykkur á að þið öll sem sitjið hér (Forseti hringir.) eruð á framfærslu hins opinbera eins og öryrkjar og margir eldri borgarar.