136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

málefni aldraðra.

303. mál
[15:24]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér er það ljúft og skylt að svara fyrirspurn hv. þm. Ragnheiðar Ólafsdóttur um vistunarúrræði aldraðra enda hafa málefni þeirra lengi verið mér hugleikin og eiginlega alla tíð sem ég hef setið á þingi og ég hef tekið þau upp hér ítrekað.

Ég tel það hafa verið framfaraspor þegar málefni aldraðra voru flutt frá heilbrigðisráðuneyti yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins vegna þess að málefni aldraðra eru ekki heilbrigðismál, og þeirrar skoðunar hef ég verið lengi. Eftir að málaflokkurinn var fluttur yfir vorið 2007 fór mikil vinna af stað í kjölfarið innan félags- og tryggingamálaráðuneytisins í samráði við ýmsa aðila sem að málaflokknum koma við að kortleggja nákvæmlega fjölda dvalar- og hjúkrunarrýma um allt land, þar með talið hversu margir byggju í fjölbýli enda gjörsamlega óviðunandi að tveir og jafnvel fleiri séu í herbergjum á heimilum aldraðra. Það hef ég gagnrýnt ítrekað. Og ég get tekið undir gagnrýni hv. þingmanns á því að það sé alls ekki boðlegt að flytja fólk langar leiðir frá sínum nánustu til hjúkrunarvistar.

Á grundvelli þeirrar vinnu sem ég nefndi áðan var í fyrsta skipti mögulegt að gera ítarlega greiningu á þörfum aldraðra fyrir hjúkrunarrými á landsvísu. Náin samvinna var höfð við öll sveitarfélögin í landinu sem ég tel mjög mikilvægt enda stefnt að því að málaflokkurinn fari yfir til þeirra innan fárra ára. Þörfin var metin í hverju sveitarfélagi fyrir sig og á öllum landsvæðum miðað við fjölda íbúa og aldurssamsetningu þeirra.

Eins og þingmönnum er flestum kunnugt kynnti forveri minn í starfi, núverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, metnaðarfulla framkvæmdaáætlun síðasta sumar um byggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma og 380 rýma til að mæta fækkun fjölbýla. Áætlunin ber með sér að þörfin fyrir ný hjúkrunarrými er fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu en jafnframt er gert ráð fyrir að 10–15% rýmanna verði fyrir hvíldarinnlagnir og skammtímavist, sem er náttúrlega mjög mikilvægt til að fólk geti dvalið sem lengst heima sem margir óska sérstaklega eftir.

Þegar hefur verið hafist handa við byggingar á höfuðborgarsvæðinu, bæði í Reykjavík og Kópavogi, en þegar þeim byggingum verður lokið í byrjun árs 2010 verður unnt að taka rúmlega 150 hjúkrunarrými í notkun. Þá er hafin bygging hjúkrunarheimilis í Snæfellsbæ og fyrirhugaðar frekari byggingar hjúkrunarheimila í Kópavogi og Fjarðabyggð. Framkvæmdaáætluninni var ætlað að gilda til ársins 2012 og vona ég svo sannarlega að við getum fundið leiðir til að fylgja henni eftir þrátt fyrir þær efnahagsþrengingar sem við stöndum frammi fyrir. Ráðuneytið hefur m.a. þegar hafið viðræður við sveitarfélögin um að þau komi að borðinu við framkvæmd áætlunarinnar. Hlutverk þeirra væri að sjá um byggingarframkvæmdir en aðkoma ríkisins verði að greiða leigu fyrir húsnæðið í 25 ár frá og með þeim tíma að framkvæmd lýkur. Mörg sveitarfélög hafa lýst sig reiðubúin til þessa samstarfs enda mikið í húfi fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra.

Virðulegi forseti. Ég tel það til fyrirmyndar að ráðist hafi verið í vandaða greiningarvinnu áður en hafist var handa við framkvæmdir. Standa vonir mínar til þess að með þeirri vinnu sem stendur yfir og er fyrirhuguð varðandi uppbyggingu vistunarúrræða á landsvísu í samræmi við þessa áætlun sé verið að bæta úr þeirri brýnu þörf sem er fyrir hendi í vistunarmálum aldraðra. Því er þó ekki að neita að mér er jafnframt kunnugt um vanda hjá einstökum sveitarfélögum, þau standa frammi fyrir því á landsbyggðinni víða að skortur er á hjúkrunarrýmum. Ég hef átt samtöl við fulltrúa sveitarfélaga um þetta efni sem hafa upplýst mig, fyrst sem þingmann og nú sem ráðherra, um þessa stöðu þó svo að ég hafi ekki verið lengi í embætti, en þetta er vandi sem þau hafa lýst yfir við mig. Í því sambandi vil ég þó leggja áherslu á að öll uppbygging tekur því miður tíma og við þurfum að temja okkur þolinmæði. Á hinn bóginn verðum við jafnframt að vera vakandi fyrir hugsanlegum breytingum sem kunna að geta leitt til þess að breyta þurfi forgangsröðun hlutanna þegar svo ber undir.

Hv. þingmaður spurði um þjónustu Heilsuverndarstöðvarinnar. Nú er það svo að hún hefur heyrt undir heilbrigðisráðuneytið en ég tel að allur þessi málaflokkur eigi að fara undir félagsmálaráðuneytið og eigi að vera á einni hendi og færast síðan yfir til sveitarfélaganna. Varðandi þjónustuna sem veitt var þar þá hætti sú þjónusta þegar Heilsuverndarstöðin fór í þrot en hins vegar mun heilbrigðisráðuneytið nýlega hafa gert samning við Hrafnistu (Forseti hringir.) um þá þjónustu sem hv. þingmaður nefndi (Forseti hringir.) í ræðu sinni.