136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur að nýrri byggðaáætlun.

306. mál
[15:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Nú þegar við horfum fram á mikið atvinnuleysi um allt land er mikilvægt að horfa til möguleika varðandi atvinnusköpun sem víðast. Öflugt tæki stjórnvalda ætti að vera vel upp sett og markviss byggðaáætlun. Nú líður að því að leggja þarf fram nýja byggðaáætlun fyrir Alþingi en sú sem nú er í gildi rennur út í ár. Ég spyr því hæstv. iðnaðarráðherra hvernig undirbúningi fyrir nýja byggðaáætlun sé háttað.

Hvaða málaflokka hefur hæstv. ráðherra til að mynda hugsað sér að taka upp í hinni nýju áætlun? Verður þar tekið á málum þvert á ráðuneyti og málaflokka eða er það hugsunin að staldra aðeins við þá málaflokka sem rúmast innan ráðuneytis hæstv. ráðherra? Er það ekki öruggt að þættir á borð við menntamál, menningarmál, samgöngumál og atvinnuuppbyggingu í sem víðustum skilningi verði tekin inn í umræðuna og vinnuna þannig að heildstæð og stefnumótandi áætlun um byggðamál megi koma fyrir þingið?

Spyrja má að því hvort byggðaáætlun ætti ekki að vera í líkingu við samgönguáætlun þar sem hægt væri að ganga að áformum stjórnvalda varðandi fjárframlög og skipulag byggðamála í stórum dráttum. Gildandi byggðaáætlun virðist hafa týnst einhvers staðar í kerfinu. Alla vega er ekki mikið um hana rætt sem tæki til að hafa áhrif á atvinnuuppbyggingu á einstökum svæðum.

Það er ekki síst mikilvægt nú eftir hrun bankakerfisins að líta til þessara mála. Lánasvið Byggðastofnunar hefur verið mjög mikilvægt fyrir hinar dreifðu byggðir og ekki síst nú þegar hrun bankakerfisins er staðreynd og lánasviðið þarf að hafa fullan styrk til að bregðast við aðsteðjandi vanda.

Hæstv. forseti. Nú er ögurstund hvað það varðar að halda vel á málum hinna dreifðu byggða. Þar getur byggðaáætlun skipt sköpum sé rétt að henni staðið og hún nýtt með réttum hætti. Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú ríkja í samfélaginu er ákaflega brýnt að vanda til þessarar vinnu og takast á við viðfangsefnin með markvissum hætti. Því hlýtur það að vera spurning hvort ekki sé rétt að efna til samráðs og freista þess að ná þverpólitískri sátt um gerð byggðaáætlunar.

Vegna mikilvægis byggðaáætlunar fyrir landsbyggðina hlýt ég að kalla eftir slíku samráði við þá vinnu sem nú þarf að fara fram. Hugmynd gæti verið að nefnd sem í sætu fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, landshlutasamtök sveitarfélaga, þróunarfélög og fleiri aðilar freistaði þess að ná samstöðu um slíka heildstæða byggðaáætlun þar sem dregnir yrðu inn þeir málaflokkar sem þarf til að móta stefnu til að sem mestum og bestum árangri verði náð. Það er engin þörf á karpi og pólitískum vígaferlum þegar kemur að gerð byggðaáætlunar. Það þarf að ræða hana út frá hinum fjölbreytilegustu hliðum og komast að niðurstöðu sem við getum lagt fyrir Alþingi.