136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur að nýrri byggðaáætlun.

306. mál
[15:39]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þann mikla áhuga sem hún hefur á byggðamálum. Ég er henni sammála um mikilvægi þess málaflokks. Hv. þingmaður talaði um nauðsyn þess að ná þverpólitískri samstöðu. Ég get trúað hv. þingmanni fyrir því að ég held að hún ætti að freista þess að ná þverpólitískri samstöðu um að byggðamálaráðherra komi alltaf úr 101. Staðreyndin er einfaldlega sú að það er ekki fyrr en byggðamálaráðherra kemur úr 101 sem maður sér það í tölum að þróunin hefur snúist við.

Í fyrsta skipti á síðasta ári gerist það, samkvæmt tölum frá Hagstofu og Byggðastofnun, að fleiri flytjast út á landsbyggðina en af landsbyggðinni. Þetta var fyrir kreppu. Ég tel því ákaflega mikilvægt að sá sem fer með byggðamálin sé ekkert hagsmunatengdur. Þetta er það sem ég mundi kalla fyrsta vers.

Í öðru lagi vil ég segja það að byggðaáætlun er samþykkt af hinu háa Alþingi. Þar fer fram pólitískt samráð og það er sjálfsagt að hlusta eftir öllum tillögum um samráð. Hv. þingmaður spyr hvernig undirbúningi hinnar nýju byggðaáætlunar sé hagað. Við hófum þá vinnu síðasta haust eftir að við byrjuðum á því að hafa fund með þeim stofnunum sem heyra undir ráðuneytið. Í nóvember hélt Byggðastofnun síðan heilsdagsráðstefnu með fyrirlestrum og vinnustofum þar sem þátttakendur lýstu skoðunum sínum á þeim áherslum sem leggja ætti til grundvallar nýrri byggðaáætlun. Þangað var, eins og ég veit að hv. þingmanni, formanni þingflokks sjálfstæðismanna, er vel kunnugt um, m.a. boðið fulltrúum þingflokka til að koma fram með sínar áherslur, líka fulltrúum sveitarstjórna, ráðuneyta, atvinnuþróunarfélaga, Vísinda- og tækniráðs og fleirum. Ég held að fast að 100 manns hafi sótt þessa ágætu ráðstefnu. Síðan hefur Byggðastofnun mótað, í samráði við þennan undirbúning og að tillögu minni, fjórar megináherslur nýrrar byggðaáætlunar. Það er, til að ég fari aðeins yfir það — ég held að það svari flestu því sem hv. þingmaður lagði áherslu á en þó ekki öllu.

1. Nýsköpun og atvinnuþróun með áherslu á að þróa áfram þekkingarsetur á landsbyggðinni og vaxtasamningana.

2. Ferðaþjónusta með áherslu á langtímastefnumótun, áherslu á að byggja upp innviðina og efla þekkingu.

3. Hagnýting innlendra orkugjafa með þróun nýrra aðferða til að lækka húshitunarkostnað á köldum svæðum og til að styrkja dreifikerfi raforku.

4. Menning og samfélag með áherslu á tengsl menningarinnar við skapandi greinar, við nýsköpun, við atvinnuþróun og að sjálfsögðu þáttur menningarinnar í að efla samstöðu um almenn framfaramál samfélagsins.

Staða þessarar undirbúningsvinnu er þannig nú, herra forseti, að í þessari viku, að ég hygg, kynnir Byggðastofnun fyrstu drög sín fyrir ráðuneytinu. Í framhaldinu mun Byggðastofnun hafa samráð við fulltrúa sveitarfélaga, fulltrúa atvinnuþróunarfélaga og annarra hagsmunaaðila á öllum atvinnuþróunarsvæðunum. Að því loknu er gert ráð fyrir að Byggðastofnun skili drögum til ráðuneytisins en í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um frekari vinnu við gerð byggðaáætlunarinnar.

Hv. þingmaður spyr hvort leitað hafi verið þverpólitískrar samstöðu um gerð hennar. Gerir hv. þingmaður ráð fyrir því, af fyrri kynnum sínum við byggðamálaráðherra, að það verði ekki gert? Að sjálfsögðu verður það gert. Málið verður lagt fyrir þingið þar sem fulltrúar allra flokka hafa tækifæri til að véla um þetta og ég mun gera allt sem ég get til að reyna að ná sem mestri pólitískri sátt um það. Ég rifja svo upp það sem ég sagði áðan að til þessarar upphafsráðstefnu, þar sem stóru línurnar voru lagðar, var m.a. boðið fulltrúum þingflokka og sveitarfélaga og úr þeim hópi eru auðvitað margir sem hafa sterka þekkingu og mótaðar skoðanir á málaflokknum og létu svo sannarlega gamminn geysa. Frumdrög þessarar áætlunar voru sem sagt lögð fyrir stjórn Byggðastofnunar í janúar og auðvitað verður það gert aftur áður en þeim verður skilað til ráðuneytisins af hálfu stofnunarinnar. En það sem skiptir kannski mestu er að Byggðastofnun mun setja drögin að áætlun á heimasíðu sína og gefa þannig hverjum sem er, hv. þingmönnum sem öðrum, tækifæri til að koma með ábendingar áður en þeim verður komið til ráðuneytisins.

Þegar Byggðastofnun hefur skilað drögunum til mín mun ég meta með hvaða hætti sé rétt að vinna málið frekar og hvernig standa eigi að því. Hv. þingmaður kom með ágæta tillögu um það áðan. Það er í gadda slegið að iðnaðarráðherra, sem hér stendur, hefur fullan hug á því að ná sem mestri pólitískri sátt um byggðaáætlun.