136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur að nýrri byggðaáætlun.

306. mál
[15:46]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta er athyglisverð umræða. Fyrst vil ég vekja athygli á því að lengi vel voru byggðamálin í forsætisráðuneytinu og ég minnist þess ekki að í því ráðuneyti hafi verið þingmaður sem hafi kennt sig við kjördæmi utan 101. En að því slepptu vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og vænti þess að út úr þeirri vinnu sem hann kynnti komi góð áætlun.

Áætlun um byggðamál er geysilega mikilvæg. En ég vil jafnframt vekja athygli á því að ef til vill eru mikilvægustu byggðaáætlanirnar áætlanir sem tengjast samgöngumálum þ.e. samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, ferðamálaáætlun, áætlun um öryggismál sjófarenda og áætlun um öryggi á þjóðvegum landsins. Þetta eru allt saman áætlanir sem gera ráð fyrir framkvæmdum við uppbyggingu innviða og hafa ekki komið hingað til þingsins (Forseti hringir.) svo heitið geti á þessu kjörtímabili. (Forseti hringir.) Ég er út af fyrir sig ánægður með það því þá standa þær (Forseti hringir.) áætlanir sem ég lét vinna og voru samþykktar hér og hafa mikið gildi. (Forseti hringir.) En ég hef átt von á því að þær kæmust til skoðunar.