136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

undirbúningur að nýrri byggðaáætlun.

306. mál
[15:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau náðu. En það verður auðvitað að lýsa ákveðnum vonbrigðum með að ekki eigi að leita samráðs við undirbúning að byggðaáætlun sem verður lögð fyrir þingið. Ég held að með þeim hætti verði hægt að ná mun heildstæðari vinnu við það efni sem við þurfum virkilega að takast á við.

Við verðum að taka upp nýtt verklag við gerð byggðaáætlunarinnar, ég held að það sé algjörlega augljóst. Hún verður að vera unnin með þeim hætti að menn viti nákvæmlega að hverju þeir ganga. Hvar hægt sé að sækja styrki til ákveðinna verkefna til að mynda og hver stefna stjórnvalda og þingsins nákvæmlega sé í þessum málaflokki.

Byggðaáætlun á að veita yfirsýn yfir allan málaflokkinn og það er okkar verkefni að tryggja að svo sé. Hér verður að tryggja gegnsæi og að menn viti nákvæmlega um hvað byggðamálin fjalla og hvernig menn ætli að standa að þeim. Hver stefna stjórnmála er nákvæmlega upp á punkt og prik og hvernig þeim peningum er varið sem eiga að ganga til málaflokksins. Við verðum að vinna þetta allt saman vel og það skiptir máli hvernig farið er með fé og krafan um að það sé gegnsætt er mjög rík.

Óskilgreindir pottar og sjóðir eru ekki vel til þess fallnir. Skilgreiningar þurfa að vera skýrar. Markmiðin þurfa að vera skýr og framlögin skýr. Þess vegna hef ég kallað eftir því í skriflegri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvernig framlögum undanfarinna ára hefur verið varið, þeim framlögum sem menn hafa ætlað til þess að efla og styrkja byggð, hvort þau framlög hafi skilað sér til málaflokksins. Ég held að það skipti mjög miklu máli að við sjáum það.