136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

tónlistar- og ráðstefnuhús.

[10:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég kem upp til að beina ákveðnum spurningum til hæstv. menntamálaráðherra en um leið vil ég hrósa ríkisstjórninni sérstaklega fyrir að halda áfram því mikilvæga og brýna verkefni sem eru framkvæmdir við tónlistar- og ráðstefnuhúsið. Mér finnst ríkisstjórnin hafa haldið vel á málum hvað þetta mál varðar. Undirbúningur hefur staðið yfir um nokkurn tíma og það var alveg ljóst að það var markmið bæði síðustu ríkisstjórnar og núverandi, sem er vonandi í dag að klára verkið ásamt borginni, að halda áfram þessum mikilvægu framkvæmdum.

Við skulum átta okkur á því að ef verkið yrði stöðvað mundi það kosta marga milljarða að koma því af stað að nýju fyrir utan það að í því mikla atvinnuleysi sem nú er gætu 600 manns fengið störf að nýju við þessa framkvæmd, 200 hjá aðalverktakanum og um 400 manns hjá undirverktaka. Það munar um minna einmitt á þessum tímum þegar mikið atvinnuleysi ríkir í landinu. Auk þess er þetta auðvitað mikilvæg fjárfesting til framtíðar, ekki bara glæsileg og góð umgjörð fyrir okkar góðu sinfóníuhljómsveit sem hefur unnið glæsta og mikla sigra á erlendri grundu, heldur ekki síður fyrir ferðamálaráðherrann. Ég man að við vorum sammála um það í síðustu ríkisstjórn að halda áfram þessu mikilvæga verki því að vaxtarbroddurinn er m.a. í ferðaþjónustunni. Þess vegna er mikilvægt að ríkisstjórnin ætli að halda áfram því verki að koma tónlistar- og ráðstefnuhúsinu í gang að nýju. Markmiðið með því að halda áfram með verkið var auðvitað að koma í gang þeirri starfsemi sem ætluð er í húsinu án þess þó að breyta framlagi ríkis og borgar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn viti að það er ekki verið að breyta fyrirætlunum sem lágu fyrir um framlag ríkis og borgar heldur er ætlunin að fara inn í sama fyrirkomulag og hefur ávallt legið fyrir. Ég vil sérstaklega nýta þetta tækifæri og hrósa hæstv. menntamálaráðherra fyrir þetta (Forseti hringir.) framlag hennar í þágu atvinnumála en ekki síður í þágu menningarmála og ferðaþjónustu.