136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

tónlistar- og ráðstefnuhús.

[10:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það er ekki eins og þetta hús og þessi hugmynd sé einhver nýlunda, fólk hefur víða í þjóðfélaginu unnið að þessu verki í áratugi og er því fagnaðarefni að haldið skuli áfram með verkið.

Mig langar til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra að því hvenær hún sjái fram á verklok í húsinu. Upphaflega var áætlað að húsið yrði opnað á þessu ári, í lok þessa árs, í síðasta lagi í mars 2010. Það er eðlilegt að framkvæmdum seinki, að menn reyni bæði að nýta fjárskuldbindingar sem best og sýna hagkvæmni í rekstri og í verki, en hvenær sér hæstv. menntamálaráðherra fram á að við getum opnað þessa höll tónlistarinnar og um leið hús fólksins? Hvenær getum við opnað dyr þessa húss fyrir fólkinu í landinu?