136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

setning neyðarlaganna.

[10:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegur forseti. Stórt er spurt. Ég hef ekki álitið það vera hlutverk mitt að skoða einmitt þessi atriði hvað setningu laga varðar sem sett voru fyrir áramót. Vissulega veit ég að það eru álitaefni sem tengjast setningu þessara laga en ég held að það verði að koma í ljós hvort einhver tiltekin ákvæði brjóta gegn stjórnarskrá eða ekki. Það verði að koma í ljós í einstökum málum og þá verði að skoða það sérstaklega en ég held að ekki sé hægt að segja það hér og nú í óundirbúnum fyrirspurnum að þessi lög brjóti í bága við stjórnarskrá. En ég held í rauninni að það sé mjög mikilvægt að virða stjórnarskrána á tímum sem þessum. Það hefur komið upp í umræðum að nú eigi að gera ýmsa hluti, nú eigi ekki að virða stjórnarskrána, nú eigi að taka til hendinni og gera ýmislegt. Ég held að akkúrat á svona tímum hafi stjórnarskráin gildi, hún skýtur stoðum undir okkar samfélag sem ég held að við verðum að treysta á.