136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

umferðaröryggismál.

[10:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi nota tækifærið og spyrja hæstv. samgönguráðherra út í mál sem ég veit að allir eru sammála um að er vandmeðfarið en hefur verið nokkuð í umræðunni núna og því skiptir máli að heyra hvernig hæstv. samgönguráðherra heldur á því. Þar er ég fyrst og fremst að vísa í umferðaröryggismálin. Við þekkjum að það eru breyttar aðstæður í íslensku samfélagi. Við þurfum að endurskoða áætlanir sem voru uppi og það er auðvitað mjög vandratað og snúið og ég öfunda í sjálfu sér hæstv. ráðherra ekki af því að þurfa að taka á þeim málum. Það eru hins vegar uppi miklar yfirlýsingar um að hætt verði við alla kynningu og áróður þegar kemur að umferðaröryggismálum. Það eru margar hliðar á því máli. Tjónið sem umferðin veldur er alveg gríðarlegt en við höfum verið að þoka okkur í rétta átt hvað þessi mál varðar. Fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, beitti sér fyrir því, eftir að ég hafði frumkvæði að því í þinginu, að farið var af stað með verkefni um öryggisúttekt á umhverfi vega, og væri kannski ágætt að hæstv. ráðherra færi yfir í leiðinni hvernig þau mál standa. Það var mjög gott og þarft framtak. Það liggur fyrir að í þessum málum eru mörg verkefni fram undan ef við ætlum að ná þeim árangri sem við erum öll sammála um. Ég ætla ekki að fara úr í afleiðingar umferðarslysa, þau eru skelfileg, bæði tilfinningalega og líka sem kostnaður fyrir samfélagið. Ég veit að allir þingmenn hér inni og þjóðin öll fylgist með þessu máli af áhuga og ég vildi því heyra fyrirætlanir hæstv. samgönguráðherra hvað þessi mál varðar í tengslum við fjárlögin.