136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

listaverk í eigu ríkisbankanna.

[10:52]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Í raun má segja að þegar bankarnir voru einkavæddir á sínum tíma hafi listaverkaeign þeirra komið tiltölulega seint upp í þeirri umræðu og kom kannski sumum á óvart að listaverkin hefðu fylgt bönkunum. Nú þegar bankarnir eru komnir í ríkiseigu liggur hins vegar fyrir að færi er á því að endurskoða þetta mál og ég legg mikla áherslu á það að þegar gengið verður frá skilum gömlu og nýju bankanna og eiginfjárreikningar nýju bankanna verða tilbúnir liggi fyrir í því samkomulagi viðauki um að listaverkin færist í eigu ríkisins. Það er afstaða mín í þessu máli enda geyma bankarnir hluta af listasögu þjóðarinnar og hafa reyndar séð mjög vel um listaverkin og geymt þau vel, haldið vel utan um þau og ítarlegar skrár hafa verið gerðar, a.m.k. í sumum bankanna.

Ég tel hins vegar eðlilegt þar sem þessi verk eru hluti af listasögu þjóðarinnar að við gerum tilraun til að reyna að fá þau aftur í þjóðareigu.