136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

starfsemi Byggðastofnunar.

[10:58]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ég hef ekkert skorið við nögl hrósyrði um þá sem ég starfaði með í fyrri ríkisstjórn og átti gott samstarf við í sambandi við byggðamál. Ég átti ákaflega gott samstarf t.d. við ráðherra Sjálfstæðisflokksins, ekki síst hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, þegar ég tók við því embætti. Þá var staðan sú að Byggðastofnun var lens. Heldur betur þurfti að slá undir hana nýju fjármagni til að hún gæti tekist á við þann mikla vanda sem þá blasti við.

Frá því er skemmst að segja að það tókst og Byggðastofnun tókst með atfylgi sínu að koma í veg fyrir að fjöldagjaldþrotin, sem spáð var í þessum sölum að yrðu meðal sérstaklega smárra útgerðarfyrirtækja á landsbyggðinni í kjölfar þorsklægðarinnar, yrði að veruleika. Til þess verkefnis fór hin nýja umsvifageta stofnunarinnar, sem samtals nam fast að 10 milljörðum kr. eftir að búið var að slá undir eigið fé hennar sem svaraði 1.200 millj. kr.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að stofnunin er lent í ákveðnum vanda núna, þ.e. eigið fé hennar er komið undir það lögbundna hlutfall sem á að gilda um slík fjármálafyrirtæki. Sömuleiðis er rétt hjá hv. þingmanni að uppi voru hugmyndir, sem reyndar komu fyrst fram frá einum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins í umræðu hér í fyrra, um að breyta þeim lögum og láta nema við 5%. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki gerlegt, það stenst einfaldlega ekki lög og viðskiptaráðuneytið hefur sent frá sér álit sem mælir gegn því.

Þessi mál eru nú til skoðunar. Ég t.d. hef ekki fengið nákvæma útlistun á því frá endurskoðendum stofnunarinnar hve mikill vandinn er. Við höfum beðið eftir því þessa dagana og þá kemur í ljós til hvaða ráða verður gripið. En ég dreg enga dul á að staðan er mjög erfið. (Forseti hringir.) Þannig er einfaldlega ástandið í þjóðarbúskapnum um þessar mundir, en (Forseti hringir.) við munum grípa til þeirra ráða sem hægt er að grípa til.