136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[11:19]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýrslu hans um stöðu mála innan heilbrigðisþjónustunnar. Það var vonum seinna því að fyrir rúmum hálfum mánuði óskaði ég eftir utandagskrárumræðu um ráðstöfun heilbrigðisráðherra til að ná markmiðum fjárlaga árið 2009 um lækkun útgjalda í heilbrigðisþjónustunni. Ég fagna því að þessi skýrsla skuli nú flutt. Kannski er ósanngjarnt að fara fram á það við nýjan heilbrigðisráðherra að hann skýri stefnu sína og mótaðar hugmyndir á svo stuttum tíma en ég verð að segja að mér fannst skýrslan frekar rýr í roðinu og beinast með ómaklegum hætti að fyrrverandi heilbrigðisráðherra.

Virðulegi forseti. Töluverð óvissa ríkir á heilbrigðisstofnunum landsins og veldur óþægindum og óróleika meðal starfsfólks. Skilaboð frá hæstv. nýjum heilbrigðisráðherra um hvert skuli stefna eru afar óljós og misvísandi. Við sem höfum starfað innan heilbrigðisþjónustunnar, og ekki síður þeir sem hafa notið þjónustu hennar, vitum hve mikil verðmæti felast í þjónustunni og hve mikill mannauður er falinn í heilbrigðisstarfsfólki okkar. Með vísan í orðaval sem við þekkjum ef til vill of vel á síðari tímum má fullyrða að fjárfesting í heilsu er arðvænlegasta fjárfesting sem nokkurt samfélag getur gert.

Við viljum öll standa vörð um íslenska heilbrigðisþjónustu og viljum henni vel. Við leitum þangað á viðkvæmustu stundunum í lífi okkar og viljum geta gengið að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu þar sem mannvirðing er höfð í fyrirrúmi. Því er sú staða sem við stöndum frammi fyrir þyngri en tárum taki. Af ástæðum sem við þekkjum vel stöndum við frammi fyrir niðurskurði á fjármagni til heilbrigðisþjónustu sem ekki verður undan skorast. Sá niðurskurður mun reyna á starfsmenn með ýmsum hætti.

Í þeirri vinnu sem fram undan er verðum við að hafa það að leiðarljósi að nauðsynleg þjónusta við sjúklinga standi þeim ávallt til boða og ekki verði dregið úr gæðum hennar. Allar breytingar sem gerðar eru á heilbrigðisþjónustunni þurfa að taka mið af þessum mikilvægu gildum og því að sjúklingurinn sé í fyrirrúmi. Það þarf að gæta þess að þarfir hans stjórni starfi innan heilbrigðisstofnana í stað þess að þjónusta við sjúklinga taki mið af starfsskipulagi og þörfum starfsmanna. Á þessu er ákveðin brotalöm og ég tel að bæði starfsmenn og sjúklingar geti borið vitni um það. Þess vegna verðum við að sjá tækifæri í breytingum því að þær fela í sér möguleika á að hugsa skipulag og starfsemi upp á nýtt þannig að til bóta verði. Mér er kunnugt um að leiðarljós breytinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi til að ná markmiðum fjárlaga er að skoða alla verkferla með hliðsjón af þörfum sjúklinga og það er verðugt verkefni.

Virðulegi forseti. Skömmu fyrir jól voru samþykkt fjárlög fyrir árið 2009. Fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram á haustdögum fól í sér að allt að 120 milljörðum kr. yrði varið til reksturs heilbrigðisþjónustunnar á yfirstandandi ári að teknu tilliti til sértekna. Við afgreiðslu fjárlaga var heilbrigðisyfirvöldum á hinn bóginn gert að skera niður um 7 milljarða kr. sem eru mikil viðbrigði fyrir heilbrigðisþjónustuna sem, samkvæmt tölum frá tímabilinu 1995–2005, óx um 5% umfram vísitölu á ári hverju.

Með samþykkt fjárlaga fengu heilbrigðisyfirvöld það verkefni að gera tillögur um nauðsynlegar aðgerðir og breytingar til að ná þessum markmiðum fjárlaga. Meginhugsunin var að standa vörð um grunnþjónustu heilbrigðisþjónustunnar og tryggja að allir hefðu aðgang að sérhæfðri þjónustu og leitast við að veita þjónustu á sem hagkvæmastan máta og nýta fjárfestingar í húsnæði, tækjum og mannafla sem best. Vinna þurfti hratt til að geta hrint aðgerðum í framkvæmd. Þegar í fyrstu viku nýs árs lágu fyrir tillögur fyrrverandi heilbrigðisráðherra til að mæta kröfum fjárlaga og voru þær kynntar starfsfólki og almenningi. Mikilvægt er að benda á að tillögurnar voru unnar í nánu samstarfi við stjórnendur viðkomandi stofnana, þvert á það sem núverandi heilbrigðisráðherra hefur haldið fram. Í kjölfarið fór fram yfirgripsmikil vinna á heilbrigðisstofnunum um allt land í því skyni að útfæra tillögurnar. Þessar tillögur voru tilbúnar til framkvæmda við stjórnarskiptin. Að sönnu voru ekki allir sáttir við tillögurnar, en ekki var heldur við öðru að búast. Breytingar hafa tilhneigingu til að mæta andstöðu, ekki síst ef þær þýða breytingu á starfsskipulagi og starfsmannahaldi, svo ekki sé minnst á breytingu á kjörum.

Virðulegi forseti. Nú er komið fram í miðjan febrúar og starfsfólk heilbrigðisstofnana sem hefur unnið hörðum höndum að boðuðum skipulagsbreytingum er í óvissu. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur þegar tilkynnt að hann ætli að snúa við ákvörðunum fyrrverandi heilbrigðisráðherra, þar á meðal skipulagsbreytingum á kragasjúkrahúsunum svokölluðu. Ég hlýt að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort afturköllun hans á fyrirhuguðum skipulagsbreytingum á kragasjúkrahúsunum þýði að allur þungi niðurskurðar í sjúkrahúsþjónustu eigi að lenda á Landspítalanum. Af því hefur starfsfólk spítalans áhyggjur og krefst svara hæstv. ráðherra. Það væri eins og blaut tuska framan í starfsfólkið sem náði undraverðum árangri í rekstri spítalans á síðasta ári.

Ég spyr einnig hvort hæstv. heilbrigðisráðherra ætli með þessum ákvörðunum sínum að hætta að nota fullkomnustu skurðstofu landsins, sem er á Suðurnesjum, og láta hana vera ónotaða til framtíðar. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur þegar fellt niður innritunargjöld á sjúkrahús, sem Alþingi samþykkti með lagabreytingu fyrir jól og átti að nema um 100 millj. kr. Rök ráðherrans voru einkum þau að ekki ætti að rukka fólk þegar það er orðið veikt. Sjúkrahús eigi að vera gjaldfrí svæði, eins og haft var eftir hæstv. heilbrigðisráðherra á fundi á Landspítala fyrr í vikunni. Hvað segir þá hæstv. heilbrigðisráðherra um sértekjur sjúkrahússins upp á 2,7 milljarða kr., en stór hluti þeirra eru komugjöld sjúklinga vegna þjónustu sem þeir fá á spítalanum án innlagnar. Er hæstv. heilbrigðisráðherra að leggja til að fella þessi gjöld niður? Hvernig fellur það saman við markmið fjárlaga um 7 milljarða kr. niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni? Ég bendi á í því samhengi að komugjöld eða hlutur sjúklinga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu er einna lægstur hér á landi innan OECD. Fyndist ekki hæstv. ráðherra réttara að taka upp nýtt greiðsluþátttökukerfi sem var í þróun undir forustu Péturs H. Blöndals og fyrirhugað var að tæki gildi 1. apríl nk.? Mér er sagt að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi blásið það verkefni endanlega af á fundi á Landspítalanum í vikunni. Ég tel að hæstv. ráðherra sé að gera stór mistök með þessu. Nýtt kerfi átti að tryggja aukið jafnræði í heilbrigðisútgjöldum heimila í landinu og koma í veg fyrir að meira en 500 fjölskyldur beri yfir 250 þús. kr. álögur vegna heilbrigðisþjónustu, eins og tölur frá árinu 2007 bera með sér. Þá er tannlæknakostnaður heimilanna undanskilinn.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt að hann ætli að snúa við ákvörðun fyrrverandi heilbrigðisráðherra um breytingar á starfsemi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Mjög eftirtektarverðar upplýsingar liggja fyrir um ofurlaun lækna á sjúkrahúsum, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra fór í gegnum, þar sem læknar sem skila ríflega hálfri vinnu geta þegið greiðslur sem verktakar að nettóupphæð um 24 millj. kr. á ári. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvað hann ætli að gera með athugun Ríkisendurskoðunar frá desember 2007 en þar er m.a. bent á verulega umframkeyrslu spítalans í rekstrarkostnaði, sem m.a. má rekja til vinnu lækna umfram heimilaðar ferliverka- og læknisverkaeiningar. Eftirtektarverðar upplýsingar koma einnig fram í athugasemdum Ríkisendurskoðunar um samninga við lækna sjúkrahússins þar sem svo virðist að ruglað sé saman einkarekstri og opinberum rekstri með hætti sem ekki er hægt að verja. Þannig segir orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar, þar sem gerð er athugasemd við það að spítalinn tryggi læknum full laun í veikindum og greiði í námssjóð þeirra, með leyfi forseta:

„Sérfræðilæknar spítalans eru allir verktakar við stofnunina og starfa flestir hjá eigin einkahlutafélögum. Ákvæði um laun í veikindum verður því að teljast mjög óeðlilegt og ekki í neinu samræmi við þau kjör sem almennt gilda í samskiptum verktaka og verkkaupa.“

Viðmiðunarlauna læknanna í veikindaleyfi er reyndar látið ógetið en fróðlegt væri að komast að þeim. Svona fyrirkomulag þar sem skipulag á vinnu hyglar einni fagstétt umfram aðra og jafnvel á kostnað annarra er gamaldags og úrelt. Ég hlýt að fagna því að hæstv. ráðherra, með yfirlýsingu sinni hér í dag, ætli að taka á því. Í mínum huga skiptir rekstrarform í heilbrigðisþjónustu ekki máli. Stjórnvöld eiga að geta valið það sem henta þykir á hverjum stað og hverjum tíma með hliðsjón af gæðum þjónustunnar og hagkvæmni í rekstri. Hins vegar verð ég að segja að vitlausasta rekstrarform í heilbrigðisþjónustu er þegar blandað er saman einkarekstri og opinberum rekstri, eins og gert hefur verið á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Með slíkri samsuðu geta skattborgarar ekki annað en tapað, eins og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Jafnvel þótt þjónustan á spítalanum sé góð er hún allt of dýru verði keypt.

Virðulegi forseti. Svo ég snúi mér aftur að skipulagsbreytingum í heilbrigðisþjónustu, þá hefur hæstv. heilbrigðisráðherra sett starf heilbrigðisstofnana í landinu í uppnám með yfirlýsingum sínum um að hann ætli ekki að fylgja eftir tillögum forvera síns um sameiningu stofnana í heilbrigðisumdæmum. Það skapar mikla óvissu. Ég vil benda á að þessar skipulagsbreytingar eru í fullu samræmi við markmið nýju heilbrigðisþjónustulaganna sem samþykkt voru fyrir tæpum tveimur árum. Þeim er fyrst og fremst ætlað að bæta og samhæfa heilbrigðisþjónustuna í landinu, m.a. með breyttri verkaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins. Einnig átti að draga úr yfirbyggingu, fækka yfirmönnum og standa vörð um þjónustuna. Ég hef þá bjargföstu trú að gengju þessar breytingar eftir yrðu þær til þess að bæta þjónustuna í héraði.

En ég verð að segja að lokum, hæstv. ráðherra og virðulegi forseti, að ég gat ekki ráðið af skýrslu hæstv. ráðherra að hann hefði haldbær rök fyrir því að halda ekki áfram á þeirri braut sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra lagði upp með til að ná markmiðum fjárlaga. (Forseti hringir.) Ég get ekki skilið hvernig hann ætlar að ná þessum markmiðum fram með hugmyndum sínum. Það er jafnóljóst sem fyrr.