136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. heilbrigðisráðherra og mig langar af því tilefni að nefna nokkur atriði sem unnið var að innan heilbrigðiskerfisins frá því í maí 2007 og þar til núverandi heilbrigðisráðherra tók við og spyr hann hvort áfram verði haldið með verkefnin.

Í fyrsta lagi var eitt af verkefnunum að leysa bráðavanda á BUGL til að stórauka þjónustu fyrir börn og ungmenni með hegðunar- og geðraskanir. Það skiptir miklu máli í árferði eins og nú er að haldið verði áfram með það verkefni. Verður það gert?

Í öðru lagi var gripið til ýmissa aðgerða til að halda aftur af kostnaðarhækkunum vegna lyfja og áætlað að lyfjaverð hefði lækkað vegna þessara aðgerða að vegnu meðaltali um 7% ef gengi krónunnar hefði haldist stöðugt á milli ára. Það samsvarar 1,5 milljörðum. Mér skilst að hæstv. heilbrigðisráðherra ætli að halda áfram á þeirri braut.

Í þriðja lagi lögðu stjórnvöld og stjórnendur LSH áherslu á að eyða biðlistum á öldrunardeildum. Sú aðgerð styrkti LSH sem bráðasjúkrahús Íslendinga og við getum nefnt klár dæmi þar að lútandi, ef neyðarástand hefði skapast í Suðurlandsskjálftanum 29. maí hefði LSH getað tekið á móti 50 sjúklingum á svæðinu. Ef atburðurinn hefði átt sér stað í maí 2007 hefðu það verið 10. Verður áfram haldið á þessari braut og sjúkrahúsið styrkt?

Í fjórða lagi var verulegur viðsnúningur á rekstri LSH og áætlaður rekstrarhalli ársins 2008 var 0,6%. Verða stjórnendur LSH styrktir í því að halda áfram á sömu braut og þar var byrjað á?

Í fimmta lagi voru sett lög um Sjúkratryggingastofnun, stofnun sem á að skipuleggja kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu. Til hvers? Jú, til að tryggja gæði, öryggi, árangur og hagkvæmni. Sjúkratryggingastofnun ber einnig að greina kostnað og hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustunni. Þessari stofnun fann hæstv. heilbrigðisráðherra allt til foráttu í umræðu á þingi þegar þau lög urðu að veruleika. Ég spyr: Verður breyting hér á? Hyggst hæstv. ráðherra standa við þau stóru orð sem hann lét falla um Sjúkratryggingastofnun þá og verður því breytt?

Í sjötta lagi lá fyrir í heilbrigðisráðuneytinu stefnumótun um markvissar aðgerðir til að styðja við búsetu aldraðra og langveikra í heimahúsum, efling heimahjúkrunar og heimaþjónustu, fjölgun hvíldar- og endurhæfingarrýma, efling geðheilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, aukið aðgengi að greiningu og sérhæfðri meðferð í öldrunarlækningum, fjölgun úrræða í dagþjálfun, fjölgun skammtímarýma fyrir heilabilaða. Hyggst hæstv. heilbrigðisráðherra halda áfram á þessari braut? Er að vænta breytinga?

Virðulegur forseti. Þegar fjárlög ársins voru samþykkt 2009 var ljóst að draga þurfti úr rekstrarkostnaði í heilbrigðiskerfinu um 6,7 milljarða. Því hafnaði núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er verkefni sem blasir við á árinu 2009 og það er algerlega ljóst að því er ekki hægt að ná nema með verulegum skipulagsbreytingum, breytingum sem alltaf eru sársaukafullar og verkefnið er erfitt og verkefnið þarf að vinna í samvinnu með það að leiðarljósi að nýta sem best fjármuni, verja grunnþætti þjónustunnar, verja störf eins og mögulegt er, draga úr yfirbyggingu og auka skilvirkni til þess að við getum, eins og stendur í lögunum um heilbrigðisþjónustu, veitt þá þjónustu sem sjúklingar þurfa á að halda, óháð efnahag eins og við erum öll sammála um.

Virðulegur forseti. Hér er verk að vinna. Verkefnið er brýnna en svo að menn togist hér á um pólitíska hagsmuni og skammi hvern annan fyrir það sem gert var eða ekki gert. Og það er heilladrýgst fyrir þjóðina að við tökum höndum saman og látum verkin tala.