136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:37]
Horfa

Ragnheiður Ólafsdóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu um heilbrigðismál í dag. Það fara miklir fjármunir í heilbrigðismálin á fjárlögum, tæpir 116 milljarðar. Þetta eru miklir fjármunir. En það þarf að skera niður eins og staðan er í dag, meðaltalsniðurskurður er u.þ.b. 4% á fjárlögum og það kemur þannig út að það eru allt upp í 8% sem heilbrigðisstofnanir þurfa að skera niður, 4% í ár og skuldahali frá fyrri árum önnur 4%, þannig að það eru um það bil 8% sem heilbrigðisstofnanir þurfa að skera niður. Hvar geta þær gert það? Jú, 7–15% mun þurfa að skera niður í launum. Síðan kemur skerðing þjónustu og hún kemur að öllum líkindum niður á valaðgerðum eða biðlistaaðgerðum og það verður mjög erfitt fyrir marga að þurfa að taka við því.

Í góðærinu voru aldrei settir nægir fjármunir til heilbrigðisstofnana, þannig að við sitjum uppi með að hluti af niðurskurðinum er vegna skuldahala. Stofnanir eru verr nýttar með einkavæðingu, það er staðreynd. Ég efast um að sameining heilbrigðisstofnana leysi einhvern vanda, það skerðir aðeins nærþjónustuna. Við þá stöðu sem er í þjóðfélaginu mun fólk fara minna til lækna vegna peningaskorts og ég hugsa með hryllingi til þess að fólk sem þarf að fara t.d. í liðskiptaaðgerðir og er undir miklu líkamlegu og andlegu álagi vegna verkja og vegna atvinnumissis. Er það þjóðhagslega hagkvæmt? Nei, ég lít svo á að svo sé ekki. Heilsugæslustöðvar þarf að efla og þær þurfa meira eða a.m.k. óskert fjármagn frá fjárlögum núna. Ég spyr: Er ekki tímabært að koma aftur á tilvísanakerfinu? Það mundi spara almenningi og ríkinu mikla fjármuni. Loks þarf að efla nærþjónustu heilsugæslustöðvanna, efla heimahjúkrun og eftirfylgni við sjúklingana. Við höfum mjög gott heilbrigðisstarfsfólk, það er engin efi á því, en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að heilbrigðiskerfið okkar er ekki það besta í heimi og úr því þarf að bæta.