136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:45]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundi Jónassyni fyrir góða skýrslu. Við heyrum að nýr tónn er sleginn í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Við heyrum nú talað um þjónustu, jöfnuð, félagshyggju og að við ætlum að standa saman um að vernda heilbrigðisþjónustuna, grunnþjónustu samfélagsins.

Fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi ríkisstjórn lögðu einmitt áherslu á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og hvernig hægt væri að reka það sem atvinnurekstur. Gjörólíkur hugsunarháttur. Sjálfstæðisflokkurinn fagnaði því sérstaklega að í þeirri ríkisstjórn sem stofnuð var væri hægt að fara í miklu meiri einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu en áður.

Ég fagna líka yfirlýsingu hæstv. heilbrigðisráðherra um þær vanhugsuðu hugmyndir og áform fyrrverandi ráðherra að leggja niður sjálfstæðar stofnanir og sameina. Ég nefni Heilbrigðisstofnunina á Hvammstanga, Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi og Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki, sem átti annars vegar að sameina undir Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og hins vegar í vesturátt. Við fórum um þessi svæði fyrir tveimur dögum og heimsóttum þessar stofnanir og sérstaklega ánægjulegt var og mikil hvatning að fá að kynnast þeim mikla metnaði sem starfsfólk og íbúar bera gagnvart heilbrigðisstofnunum sínum. Þannig er það um allt land. Í því er líka fólginn auður, í því er fólgin auðlegð sem ekki er alltaf dregin upp þegar verið er að setja upp reiknimælikvarða á hvað er hagkvæmt og hvað ekki.

Tökum Hvammstanga sem dæmi. Síðustu tvö árin höfðu hollvinasamtök og félög á svæðinu gefið tæki til sjúkrahússins upp á tæpar 20 millj. kr. Nánast öll tæki og búnaður í sjúkrahúsum úti um land eru gjafir frá samfélaginu sem undirstrikar að þessar heilbrigðisstofnanir eru hornsteinar samfélagsins. Meira að segja fallega kapellan í Heilbrigðisstofnuninni á Hvammstanga var byggð upp og búin af kaupfélaginu á staðnum. Þess vegna er stórhættulegt þegar farið er út í vanhugsaðar skipulagsbreytingar með boðvaldi að ofan eins og fyrrverandi heilbrigðisráðherra gerði og starfsfólk og íbúar urðu agndofa yfir. Einn stærsti fundur í Skagafirði sem ég hef verið á var mótmælafundur gegn ákvörðun heilbrigðisráðherra um að leggja sjúkrahúsið á Sauðárkróki undir sjúkrahúsið á Akureyri.

Allir forstöðumenn og starfsfólk á þessum stofnunum lýstu sig reiðubúin til að spara og axla þá ábyrgð, líkt og verið er að gera um allt samfélagið, að nú verði að horfa til allra þátta. En þau sögðust vilja fá að gera það sjálf, á eigin forsendum, í góðri samvinnu við stjórnvöld en ekki í formi boðvalds. Það er þessi nálgun, þessi hugmyndafræði (Forseti hringir.) sem nú ræður ríkjum í heilbrigðisráðuneytinu og því fagna ég, herra forseti.