136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[12:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason heldur áfram að klifa á því að setja eigi stofnanir á Norðurlandi undir FSA þó að hann viti mætavel að það er ekki rétt. Hann sagði hér að nú væri kominn nýr tónn vegna þess að menn tala um þjónustu. Hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur farið yfir hvað þjónustan hefur aukist á þessum 18 mánuðum. Af hverju segir hv. þingmaður ekki frá því? Hann veit það, hann veit að það er ekki lengur umræða um BUGL. Allir sem hér eru inni vissu alveg hvernig sú umræða var. Ég hef sem betur fer náð frábærum árangri þar. Menn vita að við höfum fjölgað augnsteinaaðgerðum um 800 á ári, það eru 800 einstaklingar sem geta fengið bót meina sinna.

Við vitum að gangainnlagnir eru ekki lengur fréttaefni, þær heyra sögunni til, sem betur fer. Þetta heitir aukin þjónusta. Við vitum að í sumar var engin frétt nema þegar við kynntum sumarstarfsemina, um sumarlokanir á spítölum. Bara engin önnur frétt. Þetta heitir aukin og betri þjónusta.

Við vitum að við höfum náð gríðarlega góðum árangri í að stytta biðlista eftir hjartaaðgerð. Það var mjög gaman að vera í heilbrigðisnefnd í morgun þar sem forstjórar Landspítalans fóru yfir árangurinn 2008, aldrei fleiri fengið þjónustu. Aldrei. Og aldrei náðst betri árangur í rekstri spítalans. Stórkostlegur árangur.

Það er fyrir neðan virðingu hv. þingmanns að fara ekki rétt með. Sem betur fer náði síðasta ríkisstjórn gríðarlega góðum árangri þegar kom að því að auka þjónustu fyrir fólk.

Ég ætla, virðulegi forseti, aðeins að fara yfir það sem ég komst ekki yfir áðan varðandi það sem hæstv. ráðherra vændi mig um.

Í fyrsta lagi varðandi lyfin, við náðum árangri í að lækka lyfjakostnaðinn um 1,5 milljarða á síðasta ári. Þá liggur fyrir að það að fara úr dýrari lyfjum í ódýr er ekki gert á nokkrum dögum. Hæstv. ráðherra veit að við höfum unnið að því mjög lengi, það var komið inn í reglugerð og við höfðum gert ráðstafanir áður en sá sem hér stendur hætti.

Það sama gildir um það að 18 ára og yngri fengju lægra verð, minni smásöluálagning kom til framkvæmda 1. janúar og minni heildsöluálagning 1. febrúar. Það voru ekki verk hæstv. ráðherra. Það sama gildir um þunglyndis-, veiru- og mígrenilyfin. Hins vegar í nýrri reglugerð, sem hann afnam, kom sjúklingaskatturinn og lægri kostnaður fyrir atvinnulausa. Það er hárrétt og ég hef alltaf tekið það fram.

Ef við förum síðan yfir það var ég mjög ánægður með byrjun ræðu hæstv. ráðherra þar sem hann fór yfir að arfleifðin sem menn hefðu skapað á 20. öldinni væri góð og menn hefðu unnið að þessu saman. Ég hef litið svo á að samstaða hefði verið í íslensku samfélagi um að við mundum efla heilbrigðisþjónustuna og vildum líta á hana sem fjöregg okkar.

Hins vegar er ekki rétt að stefnumótun hafi alltaf verið í gangi óháð ráðherrum. Hér nefndi hann ákveðinn góðan einstakling sem var fyrir nokkrum mánuðum ráðinn í ráðuneytið til að stýra stefnumótunarsíðu sem var sett á laggirnar eftir að sá sem hér stendur tók við. Fyrirkomulaginu var gjörbreytt í ráðuneytinu. Að vísu hefur alls kyns stefnumótun verið í gangi, sem betur fer, og margt af því sem er í gangi er afrakstur af löngu ferli.

Varðandi breytingarnar á St. Jósefsspítala — ég hef sagt að á dauða mínum hafi ég átt von en ekki því að vera skammaður fyrir að hafa ekki tekið á málum þar. Ég hef aðallega verið skammaður fyrir að hafa gert það, þó að ég hafi ekki farið nákvæmlega með tölurnar varðandi þessa sérfræðinga hef ég alltaf tekið fram að ekkert samræmi væri milli kjara sérfræðinga á St. Jósefsspítala og annars staðar. Það liggur alveg fyrir að þegar ég samdi við Landspítalann um að yfirtaka meltingardeildina, þó að það væri undir forustu sérfræðinga St. Jósefsspítala, er það 200 millj. kr. ódýrara en að gera það eins og það er núna. Síðan var alltaf lagt upp með að segja ekki upp starfsfólki og alveg ljóst að læknarnir væru þá á sömu kjörum og á Landspítalanum með því að fara þá leið. Á sama hátt bauð ég öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu að yfirtaka heilbrigðisþjónustuna í byrjun desember, þar með talið í Hafnarfirði. Það lá allt saman fyrir.

Stóra spurningin er þessi: Þegar menn hætta við sameiningar eru þeir í raun og veru — það er ekkert leyndarmál að þegar við fórum í þessa sameiningu úti á landi spöruðum við í stjórnunarkostnaði. Við spöruðum sem samsvarar forstjórunum og öðrum stjórnendum. Það er það sem við vorum að gera til að vernda störf heilbrigðisstarfsfólksins. Það lá alveg fyrir.

Nú ætla menn ekki að fara þá leið. Hvert ætla menn að senda reikninginn? Það á að vernda forstjórann og stjórnendurna. Gott og vel, það er stefna núverandi hæstv. ráðherra, en hvert ætlar hann að senda reikninginn? Hann verður að svara því.

Margt annað sem vinnst með sameiningu, m.a. rafræn sjúkraskrá, (Forseti hringir.) er mjög mikilvægt og ein af ástæðunum fyrir því að hún hefur gengið allt of hægt er að við erum með litlar, vanburðugar stofnanir og ýmislegt annað sem snýr að faglegum þætti, sem næðist með því að hafa stærri og öflugari stofnanir. (Forseti hringir.) Þetta er nokkuð sem menn þurfa að svara fyrir, hvernig eigi að ná fram með breyttum ákvörðunum.