136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[13:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mat allra lögfróðra aðila sem að þessu hafa unnið að það standist fyllilega gagnvart því sem hv. þingmaður nefndi. Þetta er mjög sérstök aðgerð framkvæmd við mjög sérstakar aðstæður. Undantekningin er fyrst og fremst fólgin í því að þessar útgreiðslur eru opnaðar fyrir fólk á allt öðrum aldri en lögin hafa almennt gert ráð fyrir. Menn höfðu ekki gert ráð fyrir því að fólk nýtti sér séreignarsparnað sinn t.d. við þær aðstæður að það ætti börn og væri að fá barnabætur, af ósköp eðlilegum ástæðum þar sem hin almennu aldursmörk eru 60 ár.

Annað sem þessu tengist tekur að sjálfsögðu mið af hinum sérstöku aðstæðum eins og því að líklegt er í talsverðum mæli að fólk sem hefur misst atvinnuna grípi til þessa ráðs. Þá mundi aðgerðin missa marks að verulegu leyti ef á móti skertust atvinnuleysisbætur, barnabætur eða annað slíkt.

Þannig að með vísan til þeirra sérstöku aðstæðna og án þess að dulið sé að félagslegur grunnur er lagður undir þessa aðgerð er reynt að horfa til þess við hvaða aðstæður það fólk gæti almennt verið sem þessi aðgerð á að gagnast. Ég get ekki ímyndað mér að nein hætta sé á því að þetta teljist brjóta jafnræðisreglur í því samhengi sem aðgerðin er sett í og sjálfsögðu með þá félagslegu hugsun sem lögð er til grundvallar.

Að sjálfsögðu gerir enginn þetta að gamni sínu, vegna þess að ekki hefur verið ætlunin að þessi bundni sparnaður sem hvatt er til með sérstöku skattalegu hagræði yrði opnaður með þessum hætti. En aðstæðurnar eru eins og þær eru og þess vegna leitar núverandi ríkisstjórn allra leiða um þessar mundir, eins og hv. þingmaður veit, til að aðstoða fólk í erfiðleikum og þetta er einfaldlega liður í því. Ég hef ekki áhyggjur af því að það standist ekki allar góðar stjórnsýslureglur (Forseti hringir.) og jafnræðissjónarmið.