136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé einfaldast að þeir lögfræðingar og sérfræðingar sem unnu að gerð þessa frumvarps í fjármálaráðuneytinu komi fyrir hv. þingnefnd og útskýri hvernig það er grundvallað í lögfræðilegu tilliti. Haft var samráð við fjölmarga aðila, þar á meðal sérfróða aðila á vegum lífeyrissjóða í undirbúningi þessa máls. Þá var reynt að vinna það eins náið með þeim og mögulegt var. Ég verð að segja að mér finnst hv. þingmaður seilast nokkuð langt til að reyna að finna einhverja ímyndaða meinbugi á þessari aðgerð, að fara út í æfingar af því tagi sem uppi voru hafðar um að þetta sé eitthvert stórkostlegt mismununarmál.

Ég minni hv. þingmann á að þetta er bundin eign þessa fólks. Hún var sett inn á þessa reikninga miðað við tilteknar aðstæður og með tilteknar reglur í huga sem voru fyrst og fremst þær að fólk fengi hana um það bil sem það færi á eftirlaun, hyrfi af vinnumarkaði, hefði ekki börn á framfæri sínu og þyrfti almennt ekki að hafa áhyggjur af atvinnuleysi. Við erum því að tala um allt aðrar aðstæður (Gripið fram í.) og ég ætla ekki að rífast við hv. þingmann í einhverjum frammíköllum. Ég tel að það sé sjálfsagt mál að skoða þetta og engin vandamál að leiða fram lögfræðilegar greinargerðir handa hv. þingmanni til að japla á. Það er alveg sjálfsagt mál en það væri fróðlegt að heyra viðhorf hv. þingmanns. Telur hann ekki réttlætanlegt að grípa til aðgerða af þessu tagi? Við getum svo rætt um útfærsluna, hvernig hún á að vera.

Ég vil líka spyrja: (Gripið fram í.) Telja menn það auðvelt eða einfalt mál fyrir Alþingi að fara að skilgreina sérstakar félagslegar aðstæður eða sérstaka fjárhagserfiðleika sem eigi að draga þá út úr hópnum sem fá aðgang að þessari eign sinni ef opnað er fyrir hana á annað borð? Ég hefði gaman af að sjá þær skilgreiningar og þau landamæri sem þannig yrðu dregin upp og hafa í huga að þetta er eign viðkomandi sem hann reynir að bjarga sér á. Hafi hv. þingmaður látið að því að liggja að líklegt sé að fólk hætti að vinna, (Forseti hringir.) afla sér tekna og fari að lifa á því að draga út séreignarsparnað sinn, held ég að það sé mikill misskilningur.