136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér er ljúft að taka undir orð hæstv. fjármálaráðherra. Við verðum að sýna ábyrgð í þessu og mér finnst eins og fjármálaráðherra sé að reyna að taka skref í þá átt með mikilli ábyrgð og festu. En við megum ekki missa sjónar á því af hverju við leggjum í þennan leiðangur. Við erum að reyna að veita fólkinu aðstoð sem á í fjárhagslegum erfiðleikum og um það má m.a. lesa í greinargerðinni. Það er tilgangurinn, að hjálpa fólki við að leysa úr sínum erfiðu fjárhagslegu skuldbindingum, þeim erfiðleikum sem það á í núna.

Þess vegna velti ég enn og aftur fyrir mér hvort menn hafi ekki leitað leiða til að tryggja öryggi lífeyrissjóðanna þegar þetta frumvarp var samið, þ.e. hvaða möguleika ríkið hefði til að koma til móts við söluþrýsting á skuldabréfamarkaði. Gat ríkið ekki gert það? Við ætlum að eyrnamerkja þær skatttekjur sem eru töluverðar. Við verðum að átta okkur á því að skatttekjur ríkisins vegna þessara fjármagnsflutninga verða mjög miklar. Hugsanlega er fjármálaráðherra með þessu að stoppa upp í stóra gatið sem hann þarf að gera núna á næstunni. En af hverju hefði ekki verið hægt að taka þessar skatttekjur til að veita fólki aukið svigrúm til þess að hjálpa sér sjálft í þessum fjárhagserfiðleikum? Það eru ekki margir sem eru með hærri séreignarsparnað en 2–3 millj. Spurningin er því hvort ríkið hefði getað farið þá leið til að auka svigrúm fólksins í landinu sem á eignir í séreignarsparnaðinum, m.a. til að skapa ákveðinn hvata á fjármagnsmarkaði.

Ég vil ítreka ég er í megindráttum sammála frumvarpinu en ég set fyrirvara varðandi fjárhæðina og fagna því sérstaklega að fjármálaráðherra er meira en reiðubúinn að taka ákveðin skref til að koma til móts við fólkið og heimilin í landinu í þeim erfiðleikum sem það stendur frammi fyrir.