136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil leggja áherslu á að ríkið teygir sig langt til móts við sjóðina líka og auðveldar þeim aðgerðina. Það gerir það með því að veita meiri greiðslufresti á staðgreiðsluskilin og það gerir það með því að lyfta þakinu eða mörkunum fyrir skattfrjálsar inngreiðslur inn á séreignarsparnað úr 4% í 6%. Þeim mun fleiri sem nýta sér það, þeim mun meiri tekjur fara frá ríkinu á móti. Ella kæmu þær launatekjur til skattlagningar í núinu í staðinn fyrir að verða að skattfrjálsum inngreiðslum inn á séreignarsparnað. Ríkið leggur því umtalsvert á móti í aðgerðina og reynir að auðvelda hana.

Kæmi til þess, sem vel má vera að skoðað verði, að ganga lengra á þessa leið, t.d. með því að opna að einhverju leyti fyrir útgreiðslur af séreignarsparnaði inn á veðlán, mundu líklega koma til skoðunar hlutir af því tagi sem hv. þingmaður nefndi. En það er mat manna að aðgerðin eins og hún er lögð upp hér eigi að geta gengið snurðulaust fyrir sig og eigi allir að ráða við hana svo fremi sem hlutirnir eru í aðalatriðum í lagi, sem við skulum vona að þeir séu. Þá sjáum við hvernig það gengur og ég legg áherslu á að það væri ákaflega æskilegt að Alþingi gæti hraðað vinnu að þessu máli þannig að aðgerðin gæti hafist strax 1. mars næstkomandi. Það er beðið eftir þessu máli, það er vakað yfir því dag frá degi hvenær þessi aðgerð fari af stað.

Mér er vel ljóst að einhverjir verða fyrir vonbrigðum og hefðu búist við meiru, að unnt yrði að taka út hærri upphæðir jafnvel í formi eingreiðslna strax í byrjun. En niðurstaðan af rækilegri skoðun og miklu samráði við aðila og mati á markaðnum og öllu þessu er einfaldlega sú að þetta sé um það bil eins langt og við getum teygt okkur miðað við ástand og horfur eins og þær blasa við okkur í dag. Lagist þær er auðveldara að ganga lengra og það er alveg ljóst að kerfið hefði ráðið við hluti fyrir einum til tveimur árum síðan sem það ræður alls ekki við í dag, einfaldlega (Forseti hringir.) vegna þess hvernig aðstæðurnar eru.