136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:42]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er svo í þessu máli eins og flestum öðrum að í þeim leynast álitaefni sem ástæða er til að fara yfir og ræða bæði í þingsal og í þingnefnd, þ.e. allt orkar tvímælis þá gert er. Og eins líka hitt að það er hyggilegra í þessu máli eins og öllum öðrum að gefa sér meiri tíma en minni til lagasetninga.

Mér finnst það einkenni á þingstörfunum í vetur, bæði hjá þeirri ríkisstjórn sem farin er frá og þeirri sem tekin er við, að gerð er mjög rík krafa af hálfu ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar til óvandaðra vinnubragða á Alþingi. Ég vil minna á það vegna þess að mér finnst slæmt að þingmenn venji sig á að mál eigi að taka mjög stuttan tíma í meðförum þingsins. Með því móti er verið að grafa undan störfum þingsins og stuðla að óvandaðri lagasetningu en ella væri. Og að leggja fram mál svo seint að það er rætt í dag, 19. febrúar, og gera kröfu til þess að það verði afgreitt það tímanlega að hægt sé að fara að vinna eftir lögunum 1. mars — sem þýðir að þau verða að hafa verið samþykkt nokkrum dögum áður — þýðir einfaldlega að það er verið að kasta til höndunum. Það er verið að gera kröfu til þingsins um að afgreiða mál frá ríkisstjórninni umræðu- og athugasemdalítið, taka því sem að er rétt þegar ríkisstjórninni sýnist ástæða til að bera fram mál sem reyndar hafa ekki komið fram mörg frá núverandi ríkisstjórn. Þingið hefur meira og minna verið verklaust vegna þess að ekki hafa komið fram mál frá ríkisstjórninni. Hér hafa verið rædd þingmannamál, sem út af fyrir sig eru mörg hver góð og gild mál og ástæða til að vinna í, en það hefur ekkert breyst hjá þessari ríkisstjórn frekar en fyrri að það er ekki ætlast til að þingmannamál nái fram að ganga og ekki er greidd gata þeirra hvorki til að koma til umræðu né til að vera tekin til meðferðar í þingnefndum.

Ég lagði fram frumvarp 17. nóvember um aðstoð við skuldugt fólk, um hugmyndir mínar í þeim efnum. Það fékkst rætt fyrir nokkrum dögum, rúmum 90 dögum eftir að það var lagt fram. Það var auðvitað vegna þess að yfirstjórn þingsins, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, raðaði þessu þannig að málið komst ekki að fyrr. Það er ekki gert ráð fyrir því og ekki greitt fyrir því að þingmenn geti fengið mál sín tekin fyrir skjótt og komið þeim til umfjöllunar í þingnefnd og að þingnefndir taki þau þar til alvarlegrar athugunar. Því miður hefur ekkert breyst í þeim efnum í vetur þrátt fyrir alvarlegt ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar sem kannski hefði frekar átt að ýta undir að þingheimur og ríkisstjórn væru tilbúin til að ræða allar góðar hugmyndir frá þingmönnum sama hvaða flokki þeir tilheyrðu. Ég vildi að þetta kæmi fram, virðulegi forseti, vegna þess sem komið hefur fram í umræðunni um skyndimeðferð í þinginu.

Í þessu máli eru auðvitað atriði sem geta nýst fólki, það er eðlilegt að á það sé bent, en þar eru líka atriði sem geta virkað á verri veginn og mér finnst af máli hæstv. fjármálaráðherra að hann sé lítið tilbúinn til að líta á það. Það sem blasir við, fyrst og fremst, er að það er verið að koma með mál sem er ætlað til úrbóta í miklum vanda fjölda fólks en þegar að er gáð er þetta bara smáplástur á sárið. Og ég spyr: Hvað svo þegar áhrifum málsins lýkur? Gert er ráð fyrir því samkvæmt greinargerð frumvarpsins að um 40–50 milljarðar verði teknir út af séreignarlífeyrissparnaði. Af þeim er greiddur skattur, u.þ.b. þriðjungurinn af þeirri fjárhæð, þannig að það eru kannski 25–30 milljarðar sem fólkið sem tekur út þessa peninga getur notað til að lækka skuldir sínar ef það svo kýs, en það er enginn áskilnaður um það.

Segjum svo að allir leggi þessa peninga til þess að lækka skuldir sínar, 25–30 milljarða kr. Í blöðunum í dag eru upplýsingar um að skuldir heimilanna séu 2.000 milljarðar kr. Það er því 1% af skuldunum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að heimilin geti haft undir höndum. Út af fyrir sig getur þetta verið einhver hjálp í þá níu mánuði sem útgreiðslutíminn stendur en það er augljóst hverjum manni að þetta er bara plástur á sárið. Því spyr ég: Hvað svo? Ég skal svara því, virðulegi forseti. Svarið er að þá eru kosningarnar um garð gengnar. Þetta er bara plástur til að róa fólk fram yfir kosningar. Það er ekkert annað í þessu máli. Þarna eru í raun og veru engin svör af hálfu ríkisstjórnarinnar til fólks með miklar skuldir um það hvernig leysa eigi þau mál, fólks sem á í alvarlegum vanda, það alvarlegum vanda að ríkisstjórnin ræðst í það að brjóta upp séreignarlífeyrissparnaðarkerfið. Svo stór vandi verður ekki leystur með þessu, það er algerlega augljóst mál. Ríkisstjórnin hefur bara ekki svör. Það er verið að reyna að slá ryki í augu fólks með því að setja þetta fram hér.

Sjálfstæðisflokkurinn gengur reyndar lengra. Hv. 1. þm. Suðvesturkjördæmis, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, fer í lýðskrumið, fer í yfirboð og orðar það hér í ræðustól að þeir sem taka út séreignarlífeyrissparnað ættu kannski að sleppa við að borga skatta af þessum tekjum sínum. Hversu langt eru menn komnir í aðdraganda þingkosninga til að fara í yfirboð, til að ganga í augun á kjósendum? Mér sýnist það vera að gerast, að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ganga lengra. Hann vill, ekki var hægt að skilja orð hv. þingmanns öðruvísi en svo að hann vilji leyfa fólki að hafa skattgreiðslurnar af séreignarlífeyrissparnaðinum til ráðstöfunar, væntanlega þá kannski til að borga skuldir.

Ég held að menn séu komnir á afar hættulegar brautir og kannski endurspeglar þetta mál það að afar óheppilegt er að fela stjórnmálamönnum, í aðdraganda kosninga þegar þeir eiga allt undir kjósendum, að finna lausnir á svona miklum vanda. Þá er nefnilega hætta á að menn fari út í ódýru lausnirnar, yfirboðin. Hæstv. fjármálaráðherra sagði á fundi þar sem hann stóð andspænis kjósendum að hann vildi afnema verðtrygginguna. Hann veit alveg eins og ég að það er tómt mál að tala um að gera slíkt. Enda sagði hann, að afnema ætti verðtrygginguna þegar búið verður að ná verðbólgunni niður. Hann veit eins vel og ég og allir aðrir sem hafa kynnt sér efnahagsmál að verðbólgan mun falla eins og steinn til jarðar á næstu mánuðum og verða að engu og þar með talin verðtryggingin. Enginn mun spyrja um verðtrygginguna á næstu mánuðum á meðan það tímabil gengur yfir sem nú þegar er komið víða um heim með verðhjöðnun. Það mun standa töluverðan tíma. Menn verða, virðulegi forseti, að gæta sín aðeins í þessari umræðu.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í upphafi þegar byrjað var að reifa þessar hugmyndir — ég hygg að ráðherra hafi þá verið félags- og tryggingamálaráðherra í fyrri ríkisstjórn — að þetta yrði bara leyst við mjög þröngar aðstæður og aðeins til þeirra sem skulduðu mikið og aðeins þannig að þeir sem tækju út séreignarlífeyrissparnað notuðu hann algerlega til að borga upp skuldir af húsnæði sínu. Nú er þetta allt orðið galopið. Það segir meira að segja í greinargerð með frumvarpinu að tilgangurinn sé ekki bara sá að gera fólki kleift að taka út lífeyrissparnaðinn til að borga skuldir heldur til að auka almenna eftirspurn í hagkerfinu — auka almenna eftirspurn í hagkerfinu. Og þá spyr ég, ef það er tilgangurinn: Af hverju er þá staldrað við eina milljón? Er ekki hægt að auka eftirspurn í hagkerfinu með því að leyfa fólki að taka allt út og ekki bara í níu mánuði heldur 18 mánuði?

Ég held, virðulegi forseti, að verið sé að vinna mikið skemmdarverk á öllum sparnaðarkerfum sem menn hafa verið að koma upp vegna þess að íslenskt þjóðfélag gengur ekki nema almenningur spari peninga. Verið er að grafa undan trúnni á sparnaði og trúnni á kerfum til að byggja hann upp með því að rjúfa það sem ákveðið hefur verið, að fólk geti lagt peninga til hliðar í langan tíma og notað þá í ellinni. Það er verið að grafa undan þeirri trú, virðulegi forseti, og það er meira að segja verið að hvetja til þess með því að meðhöndla þá sem taka út séreignarlífeyrissparnaðinn sinn núna öðruvísi en gert væri ef þeir tækju út séreignarlífeyrissparnaðinn sinn á réttum tíma. Það er verið að hvetja til þess með því að undanþiggja menn skerðingu á barnabótum og vaxtabótum. Það geta verið töluverðir peningar. Vaxtabætur skerðast um 6% af tekjuskattsstofni, þannig að 6% af milljón sem tekin er út eru 60 þús. Barnabætur skerðast með ákveðnum hætti ef tekjuskattsstofn er yfir 3,6 millj. hjá hjónum. Þannig að milljón sem fólk, sem hefur yfir 3,6 millj. í tekjur, fær að taka út leiðir til skerðingar á barnabótum en gerir það ekki í þessu sérstaka tilviki. Það er verið að hvetja fólk til að taka út frekar núna en seinna.

Taki fólk út séreignarlífeyrissparnað sinn eftir sextugt lendir það í skerðingum á barnabótum og vaxtabótum. (Gripið fram í: Menn eiga kannski ekki börn á þeim aldri.) Það er allt til í því, virðulegi forseti, og heldur vaxandi sá fjöldi sem er í þeirri stöðu að fá barnabætur en býsna margir eiga rétt á vaxtabótum þó að þeir séu orðnir sextugir. Ég held að menn ættu bara að skoða það. Það hlýtur að vera til statistik yfir þau mál þannig að menn geti lagt mat á það atriði.

Ég er að mörgu leyti sammála sjónarmiðum lífeyrissjóðanna, að þetta sé óskynsamleg aðgerð vegna þess að hún grefur undan sparnaði. Við þurfum á flestu öðru að halda en því að draga úr sparnaði hér á landi. Við þurfum meiri sparnað. Það hefur verið vandi í íslensku þjóðfélagi á undanförnum áratugum hve sparnaður hefur verið lítill og hve vilji fólks til að eyða tekjum sínum hefur verið mikill (Gripið fram í.) sem hefur í vaxandi mæli leitt til vaxandi skulda eftir því sem möguleikarnir á að taka peninga að láni hafa vaxið. Það er ógæfa margra að þeir hafa nýtt sér alla möguleika til að skuldsetja sig og sitja síðan uppi með vanda sem er erfiður viðureignar þegar dregur úr tekjum. Til þess að vinna bug á því, til þess að vinna okkur út úr þeirri stöðu að skuldir heimilanna séu 2.000 milljarðar kr., þá eigum við frekar að hvetja fólk til að spara en eyða. Að mínu viti gerum við það ekki með svona hringlanda varðandi sparnaðinn sem að lokum auðvitað þýðir að fólkið sem ætlaði að nota séreignarlífeyrissparnaðinn sinn eftir sextugt til að bæta lífskjör sín, það mun auðvitað ekkert sætta sig við lífskjaraskerðinguna. Það mun gera kröfur á ríkissjóð á þeim tíma um hærri almannatryggingabætur og annað slíkt til að hafa þau lífskjör sem það bjóst við að það mundi hafa með séreignarlífeyrissparnaði sínum. Það er því verið að vísa þessu yfir á skattgreiðendur framtíðarinnar að nokkru leyti, virðulegi forseti.