136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðför, lögum um nauðungarsölu og lögum um gjaldþrotaskipti og fleira.

Á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar eru áætlanir um að bæta stöðu skuldara við gjaldþrotaskipti og að fresta nauðungarsölu um sex mánuði til að skuldarar fái betra tækifæri til að endurskipuleggja fjármál sín.

Með frumvarpinu eru lagðar til lagabreytingar til að ná því markmiði en vegna hins sérstaka ástands sem nú ríkir í efnahagsmálum með tilheyrandi greiðsluvanda hjá stórum hópi manna þykir nauðsynlegt að tryggja honum virkari úrræði til að endurskipuleggja fjármál sín með varanlegum hætti. Er frumvarpið því liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að koma enn frekar til móts við fjárhagsvanda einstaklinga og heimila í landinu.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar efnisbreytingar sem ýmist er ætlað að vera varanlegar eða gilda til bráðabirgða. Í fyrsta lagi er lagt til í 1. gr. frumvarpsins að aðfararfrestur verði lengdur úr 15 dögum í 40 daga. Á þessi aukni frestur að nýtast skuldurum til að bregðast við framkominni innheimtu og til að endurskipuleggja fjármál sín en lagt er til að úrræðið sé tímabundið og falli niður 1. janúar 2010.

Í öðru lagi er lögð til í 3. gr. frumvarpsins sérstök tímabundin heimild til frestunar á nauðungarsölu fasteigna. Nánar tiltekið verði nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis frestað tímabundið til 31. ágúst 2009. Verður gerðarþoli þá að óska eftir slíkri frestun auk þess sem frestunin nær einungis til þeirra eigna þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skrásett lögheimili enda sé um að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.

Þannig er gert ráð fyrir því að sýslumaður taki ekki ákvörðun um að hefja nauðungarsölu slíkra fasteigna fyrr en eftir 31. ágúst 2009. Auk þess sem sýslumaður getur frestað þeim nauðungarsölubeiðnum sem fram eru komnar til sama tíma. Að auki er mælt fyrir um að þær kröfur sem eru í eigu íslenska ríkisins eða fjármálafyrirtækja í eigu þess beri einungis almenna vexti, hafi um þá verið samið, frá frestun nauðungarsölu og til 1. september 2009.

Tengt þessu úrræði er svo ný regla í 2. gr. frumvarpsins þar sem sýslumönnum verður hér eftir gert skylt að leiðbeina gerðarþola sérstaklega um þann kost að fasteign sé ráðstafað með nauðungarsölu á almennum markaði. Er það gert til að tryggja að ávallt verði leitað leiða til að fá sem hæst verð fyrir eignina.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti og fleira. Með þeim er leitast við að ná því markmiði að treysta enn frekar stöðu skuldara við gjaldþrotaskipti. Felur frumvarpið í sér nokkur nýmæli.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að þegar krafa hefur komið fram um að bú einstaklings verði tekið til gjaldþrotaskipta eigi dómari að leiðbeina skuldara um þau úrræði sem hann hefur til að leita eftir nauðasamningi eða greiðsluaðlögun. Með þessu er reynt að tryggja að enginn skuldari verði af því að leita eftir greiðsluaðlögun sé þess nokkur kostur. Getur dómari m.a. frestað því að taka afstöðu til gjaldþrotaskiptabeiðninnar í allt að þrjá mánuði í stað eins ef skuldari og lánardrottinn óska þess sameiginlega og um er að ræða einstakling sem ekki stundar atvinnurekstur.

Í 5. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um nýjan almennan fyrningarfrest við gjaldþrotaskipti og er lagt til að sá frestur verði tvö ár. Ef um samþykkta kröfu er að ræða við gjaldþrotaskipti reiknast fresturinn frá lokum gjaldþrotaskipta en annars frá þeim degi þegar kröfunni var lýst við búskiptin.

Í frumvarpinu er enn fremur gert ráð fyrir að fyrningunni geti verið slitið innan þessa nýja tveggja ára frests og þá færi um fyrninguna eftir almennum reglum. Það á þó aðeins við um þær kröfur sem þannig er haldið fram gagnvart skuldara en ekki aðrar kröfur sem þá falla niður að tveimur árum liðnum.

Í þessu ákvæði felst mikil réttarbót fyrir skuldara. Í því hefur verið tekið tillit til grundvallarreglunnar um skuldbindingargildi samninga annars vegar og svo hins vegar sjónarmiða um að skuldari geti á einhverjum tíma losnað undan skuldbindingum sínum þegar bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Um stuttan tíma er að ræða auk þess sem skuldara stendur alltaf til boða að leita greiðsluaðlögunar eins og fyrirhugað er í frumvarpi til greiðsluaðlögunar. Að auki er rétt að vekja athygli á því að í frumvarpi um greiðsluaðlögun sem nú er til meðferðar í allsherjarnefnd er lagt til að skuldara standi ætíð til boða að ljúka gjaldþrotaskiptum með greiðsluaðlögun en í þeirri reglu er tekið sérstakt tillit til skuldara.

Í 6. gr er að lokum lagt til sérstakt bráðabirgðaákvæði vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í íslensku efnahagslífi. Er með ákvæðinu reynt að koma til móts við ósk skuldara sem vill búa áfram í því húsnæði sem hefur verið heimili hans þar til hann hefur fundið lausn á húsnæðisvandamálum sínum.

Í ákvæðinu er lagt til að skuldari geti búið áfram í eign sinni í allt að tólf mánuði þrátt fyrir að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þegar svo er komið fyrir skuldara á hann að leita eftir samþykki skiptastjóra um leigu húsnæðisins en úrræði eru að auki háð samþykki veðhafa. Fyrir afnotin á skuldari að greiða leigu sem er að lágmarki sá kostnaður sem er af eigninni. En það sem er umfram rennur þá til greiðslu þeirra krafna sem hvíla á fasteigninni.

Eins og áður er greint er ákvæðið tímabundið og gert ráð fyrir að heimildin falli brott 1. mars 2010. Til að taka af allan vafa kemur fram í ákvæðinu að hafi skiptastjóri tekið ákvörðun um leigu fyrir 1. mars 2010 haldi slík ákvörðun gildi sínu jafnvel þótt í henni felist að skuldari búi í fasteign með heimild skiptastjóra umfram þann tíma.

Virðulegi forseti. Þessar reglur eru settar fram vegna þess sérstaka ástands sem nú ríkir í efnahagsmálum og er þeim ætlað að auka svigrúm skuldara sem lenda í greiðsluerfiðleikum til að leita úrræða og endurskipuleggja fjármál sín og hugsanlega komast þannig hjá því að aðför og fjárnám sé gert í eignum þeirra og komast hjá hugsanlegri nauðungarsölu og gjaldþrotaskiptameðferð í kjölfarið.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.