136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:20]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð hugsi yfir frumvarpinu sem hér er lagt fram og hvaða vanda því er í raun ætlað að leysa. Ég hefði haldið að ef ríkisstjórnin og ríkisvaldið vildu í raun koma til móts við skuldara væri virkasta leiðin til þess að fella niður réttargjöld eða a.m.k. að draga verulega úr kostnaði hvað þau varðar, því sú gjaldtaka fellur á endanum á skuldara og er verulega íþyngjandi fyrir þá.

Það hefði verið til bóta fyrir alla sem lenda í því að leita að fullnustu með einum eða öðrum hætti, hvort sem um aðför eða nauðungarsölu er að ræða. Það hefði verið virkara úrræði en það er alltaf spurningin þegar gripið er til ráðstafana eins og hér eru lagðar til hvort um eðlileg viðbrögð sé að ræða og hvort þær þjóni einhverjum meiri háttar eða mikilvægum tilgangi. Það er það sem ég leyfi mér að efast um.

Tilgreint er að aðfararfrestur í ákveðnum tilvikum skuli frá gildistöku laga þessara vera 40 dagar í stað 15. Í eina tíð velti maður fyrir sér hvort eðlilegt væri að hafa aðfararfrest yfir höfuð. Eðlilegt var talið að ákveðinn aðfararfrestur væri til að skuldari gæti gert sér grein fyrir að þar væri um aðfararhæfa kröfu að ræða og gæti brugðist við áður en til þess þyrfti að koma.

Sú leið var valin að hafa ákveðinn 15 daga aðfararfrest sem átti að vera fullnægjandi í þeim tilvikum. Það verður að hafa í huga að þær fullnustugerðir sem eru aðfarargerðir eru fyrst og fremst gerðar til þess að tryggja efndir á skyldu, hvort sem um er að ræða peningaupphæðir eða aðrar athafnir eða athafnaleysi. Þær sem sagt tryggja efndir. Í raun er ekki um fullnustuaðgerð að ræða heldur er verið að tryggja efndir.

Þetta er ákveðinn tryggingaréttur sem stofnast og þar af leiðandi hlýtur að vera spurning hvort eðlilegt sé að lengja aðfararfrestinn og takmarka þá möguleika kröfuhafa til að ná fram tryggingu fyrir kröfum sínum. Við skulum gera okkur grein fyrir að það eru ekki bara einhverjar stórar lánastofnanir sem kunna að vera í þeirri stöðu heldur getur verið um að ræða aðila sem eiga ógreidd vinnulaun eða eitthvað annað.

Í 1. gr. er kveðið á um að þessi lengri aðfararfrestur skuli eingöngu taka til þeirra þátta sem kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. og 1. málslið 8. gr. aðfararlaganna. Þá fjöllum við í raun um hluti sem skipta tiltölulega litlu máli, þ.e. mikinn minni hluti þeirra krafna sem aðfarar er beiðst fyrir. Þannig er ekki verið að gera breytingar hvað varðar dóma eða úrskurði sem eru uppkveðnir af íslenskum dómstólum. Ekki er verið að gera breytingar hvað varðar kröfur samkvæmt áskorunarstefnum sem eru aðfararhæfar með áritun dómara. Ekki er verið að taka til sátta eða nauðasamninga eða sátta sem gerðar hafa verið af yfirvöldum.

Ákvæðið tekur eingöngu til úrskurða yfirvalda, sem eru aðfararhæfir samkvæmt fyrirmælum laga. Ákvarðanir yfirvalda um fésektir, dagsektir og févíti eru mjög fágætar. Skuldabréf fyrir ákveðinni peningaupphæð samkvæmt nánari ákvæðum og víxlum og tékkum þar sem gerð er krafa á þeim víxilrétti og tékkarétti sem þetta gildir um, en ekki án undanfarandi dóms. Í raun væri fljótlegra að fá aðfararhæfan dóm fyrir kröfunni og þar með mundi aðfararfresturinn vera mun styttri en samkvæmt frumvarpinu. En ákvæðið varðandi víxlana og tékkana var sett á sínum tíma til að einfalda meðferð þeirra og draga úr álagi á dómstóla.

Eftir því sem ég fæ best séð þjónar þetta ákvæði í 1. gr. frumvarpsins sáralitlum tilgangi. Það er eingöngu gert og til þess fallið að rugla með það sem ég mundi kalla eðlilega aðfararfresti, þar sem skuldari hefur öll tækifæri til að gera sér grein fyrir því að viðkomandi krafa liggur fyrir og gera ráðstafanir til að bregðast við þeirri skyldu sem óhjákvæmilega hvílir á honum.

Þegar hlutir eru eins og þeir eru í þjóðfélagi okkar í dag skiptir miklu að menn grípi ekki til aðgerða sem eru til þess fallnar að rugla kerfið og draga úr eðlilegri skilvirkni þess, sér í lagi þegar þær þjóna mjög takmörkuðum tilgangi eins og ákvæði 1. gr. gerir í yfirgnæfandi meiri hluta tilvika. Ég hef enga faglega úttekt á því, en geri ráð fyrir að yfir 90% af þeim aðförum sem eru framkvæmdar hér á landi, þ.e. vegna almennra krafna annarra en ríkisins, séu á grundvelli annarra ákvæða 1. gr. laga um aðför en þeirra sem eiga að hafa þennan lengri aðfararfrest. Þá spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra: Hvað er unnið með því að setja þetta ákvæði? Ég satt að segja átta mig ekki alveg á tilgangi þess.

Varðandi 2. gr. frumvarpsins, og reyndar kemur það líka fram í 4. gr., þar sem talað er um almenna leiðbeiningarskyldu. Það er góðra gjalda vert, en í raun hefur verið talið að embættismenn eigi að inna hana af hendi. Þannig í sjálfu sér er engin breyting á því sem verið hefur í gildi í praxís.

Síðan er spurning um það sem kveðið er á um í 3. gr., að fresta aðgerðum þ.e. nauðungaruppboði fram yfir 31. ágúst 2009. Ég get vel skilið að þar sé reynt að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru fyrir hendi. En hvað með ákvæðið? Hvað á að gerast 31. ágúst 2009? Verður þá öllu sleppt lausu? Fáum við gríðarlega hrinu nauðungaruppboða sem mundu þá væntanlega fela það í sér að verðmæti eigna á nauðungaruppboðum yrði mun lægra en miðað við óbreytta réttarframkvæmd?

Þá er spurning hvort við þjónum hagsmunum veðhafa eða hagsmunum skuldara með því að leiða út í slíka hugsanlega óvissu. Ég get satt að segja ekki svarað því. En ég velti því fyrir mér hvort að það sé í raun til bóta að fara þá leið sem gert er í frumvarpinu, þ.e. að miða við þessa ákveðnu dagsetningu, 31. ágúst 2009.

Hvað með þá sem eru að sækja t.d. vinnulaun sín og hafa fengið tryggingarrétt í fasteign? Hvað með þá? Þurfa þeir að sætta sig við að eiga ekki nokkra möguleika í réttarkerfinu til þess að ná fram greiðslunni vegna þess að hugsanlega nýtur atvinnuveitandinn sem greiddi þeim ekki launin þessara ákvæða sem hér um ræðir? Vegna þess að þetta snertir ekki bara fólk eða fjölskyldur í sérstökum greiðsluvanda heldur ýmsa fleiri. Þess verður alltaf að gæta að setja ekki ákvæði eins og þessi sem menn hreinlega sjá ekki fyrir endann á. Ég hef verulegar áhyggjur af því að setja ákvæði eins og það sem er í 3. gr. þar sem bara er miðað við ákveðna dagsetningu þar sem eftir þá dagsetningu gilda ekki ákvæði og öll nauðungaruppboð fara af stað.

Ég hefði talið eðlilegra — ég get út af fyrir sig skilið þá hugsun sem er á bak við þetta í frumvarpinu og ég get verið henni sammála — að æskilegt sé að fara varlega hvað varðar nauðungaruppboð eins og nú háttar til. Það beri að gefa þann slaka og það tímarúm sem mögulegt er og viðhlítandi er. Af því að við verðum líka að átta okkur á því að við getum ekki tekið innheimtuúrræði gjörsamlega úr sambandi. Þá er spurning hvort ekki væri eðlilegra að setja ákvæði um það að fresta ákvæði varðandi nauðungaruppboð, að þau skuli ekki taka fyrir, eða hve langur tími megi líða á milli fyrirtöku og uppboðs. Að sá frestur sé t.d. lengdur verulega. Þannig að það markmið næðist að draga tímann svo skuldarar sem eiga það á hættu að missa eignir sínar eigi meiri möguleika á því að gera ráðstafanir í málum sínum. Mér finnst verulega mikið atriði að gera ráðstafanir í þá átt en ekki að fara þá leið sem frumvarpið gerir ráð fyrir að bara sé miðað við ákveðna dagsetningu og á þeim tíma byrji einhver leikur sem ekki verður séð fyrir endann á.

Þá spyr ég einmitt í því sambandi spurningar sem ég hygg að væri vert að velta fyrir sér. Hvað ef um mikla rýrnun á veði eignar er að ræða á því tímabili sem hér um ræðir? Ef veðsett eign rýrnar sannarlega í verði svo verulegum fjárhæðum nemur frá gildistöku laganna til þess tíma sem uppboðsmeðferð fer af stað. Getur verið að einhver kalli yfir sig ábyrgð vegna þess? Á veðhafinn sem átti tryggt veð að sætta sig við að tapa hugsanlega verulegum hluta kröfu sinnar vegna þess að ríkisvaldið setti þessi ákvæði í lög? Hver er þá hugsanleg bótaskylda ríkisvaldsins þegar um slíkt er að ræða?

Ég skil þá hugsun sem hér um ræðir og sett er fram í þessu lagafrumvarpi og get virt þau sjónarmið og tekið undir það, sem ég skildi af framsögu hæstv. dómsmálaráðherra að væri vilji hennar, að gera skuldurum kleift að draga úr og auka fresti. Hvort ekki væri betri og heppilegri aðferð að lengja þá fresti í uppboðsmeðferðinni? Þess vegna mætti setja ákvæði til bráðabirgða varðandi ákvæði um nauðungaruppboð. Sem sagt að frá því að yfirvald tekur við nauðungaruppboðsbeiðni sé um lengri frest að ræða en nú er og líka sé aukinn frestur frá byrjun uppboðs og til þess að raunveruleg nauðungarsala á sér stað. Ég hefði haldið að það væri heppilegri leið og mundi ná betur tilgangi sínum en sú aðferðafræði sem er í frumvarpinu.

Ég styð því þær hugmyndir sem að baki þessu liggja en bendi á að ég tel að verið sé að fara af stað með lagasetningu sem geti haft hættur í för með sér.