136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:52]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þm. Jón Magnússon var ekki neikvæður. Ég skildi tóninn (JM: Aldrei neikvæður.) í því — ég nefndi aldrei það orð að hann hefði verið ófaglegur í ræðu sinni, það kom aldrei upp úr mér. Neikvæðnin sveif hins vegar yfir vötnum og ef maður hefði verið í Bandaríkjunum hefði verið spennandi að geta fengið hlustendamælingu á hv. þingmann og spurt þjóðina hvort hv. þm. Jón Magnússon hefði verið neikvæður eða jákvæður. En ég beini því enn og aftur til hv. þingmanns að koma með jákvæða strauma inn í umræðuna og jákvæðar tillögur og fagna því sem hér er gert. Ég verð að segja alveg eins og er að fræðimaður minn lýtur í lægra haldi fyrir þeirri neyð sem þjóðin býr við. Það er ekkert öðruvísi. Ef ég þarf að víkja af hefðbundnum kennisetningum lögfræðinnar og því sem ég hef lært geri ég það vegna þess að þjóðinni blæðir. Hún býr við neyðarástand og því fyrr sem menn skilja það, því betra.

Og það er hin besta tillaga að skoða réttargjöldin og ég þykist vita að hv. þm. Jón Magnússon muni beita sér í þeim efnum.