136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:57]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil í ljósi þeirrar umræðu sem hér átti sér stað taka fram í upphafi að ég er alls ekki neikvæður gagnvart þeim sjónarmiðum og meginatriðum sem fram koma í þessu frumvarpi. Ég hef verið sammála því meginstefi sem fram hefur komið hjá öllum stjórnmálaflokkum, held ég, að við þær aðstæður sem uppi eru í efnahagslífinu sé nauðsynlegt að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Ég hef m.a. ritað grein í Morgunblaðið um það þar sem ég hef lýst þeim sjónarmiðum mínum að við þessar aðstæður þurfi einmitt að gera það.

Fjöldi fólks óttast um framtíð sína og heimili sín og þess vegna er mikilvægt að leita allra þeirra leiða sem til eru til að slá á þann ótta í samfélaginu meðan mestu ósköpin ganga yfir. Mín skoðun hefur verið sú að við ættum að leita allra leiða til að ná þeim markmiðum að koma til móts við það fólk sem nú á í greiðsluvanda og sér fram á fyrirsjáanlegan greiðsluvanda og hugsanlega þau örlög að missa húsnæði sitt.

Það má vel vera að sú leið sem þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra fetar sé til þess fallið að ná þeim árangri. Við yfirlestur málsins tel ég þó að velta megi fyrir sér ýmsum öðrum leiðum sem hljóta að koma til skoðunar þegar málið kemur til umræðu í hv. allsherjarnefnd. Ég held nefnilega að fleiri leiðir séu til sem nýst geta heimilunum í landinu og þeim sem eiga í greiðsluerfiðleikum en þær sem fram koma í þessu frumvarpi.

Það eru líka atriði sem nauðsynlegt er að varast í tengslum við þessi mál. Við verðum að passa okkur á því að fara ekki fram úr sjálfum okkur þó svo að hugurinn sé góður. Að sama skapi má velta fyrir sér hvort gengið sé nægilega langt í þessu frumvarpi til að koma til móts við þau sjónarmið sem því er ætlað að ná fram og hvort það nái að leysa þann vanda sem því er ætlað að gera. Frumvarpið lýtur að því að fresta aðför að tilteknum kröfum, þ.e. að tilteknar aðfararheimildir sem getið er um í lögum verði ekki aðfararhæfar fyrr en að lengri tíma liðnum en núgildandi lög kveða á um. Ýmsar aðfararheimildir eru undanskildar miðað við núgildandi lög, eins og t.d. dómar um kröfur sem fallið hafa. Maður veltir fyrir sér hvort til greina komi að aðrir þeir þættir sem taldir eru upp í núgildandi 1. gr. aðfararlaganna eigi að falla undir ákvæði þessa frumvarps og þá nefni ég sérstaklega dómana og áskorunarstefnur sem eru aðfararhæfar. Ég ætla ekki að gera upp hug minn í þessari ræðu til þeirra álitamála en ég velti þeim upp.

Við verðum líka að velta því fyrir okkur að í þessu felast hættur. Það felast hættur í því að fullnusturéttarfarið sé tekið úr sambandi. Við þurfum að kanna það og leggja töluverða vinnu í það í nefndinni að vega það og meta hvort sú leið sem hér er farin kunni að leiða til þess að þeir hópar sem frumvarpið fjallar um muni þegar frumvarpið hefur verið lögfest hætta að greiða af lánum sínum. Það væri afar slæmt fyrir allt fjármálakerfið, fólkið sjálft, bankana og greiðsluflæðið inn í kerfin. Þessi aðgerð má ekki verða til þess að fólk hætti að greiða af lánum sínum vegna þess að það veit að það verður ekki að þeim gengið geri það það.

Að sama skapi þurfum við að velta fyrir okkur hvort sú leið sem hér er farin muni leiða til þeirrar niðurstöðu að aðgangur að lánsfé sem er ekki mikill í dag — það má segja að lánamarkaðurinn sé frosinn en það getur verið að afleiðingar þessa frumvarps verði þær að lánamarkaðurinn verði botnfrosinn, að ástandið verði verra en það er nú. Ég varpa þessu fram vegna þess að þeir sem lána fjármuni ætlast til þess að þeir geti með einhverjum hætti innheimt þau lán sem þeir veita. Það væri býsna óheppilegt ef afleiðingar frumvarpsins yrðu þær að aðgangur að lánsfé mundi minnka af þessum ástæðum.

Það þarf líka að fara nákvæmlega yfir það til hvaða krafna við erum að líta við meðferð þessa máls, til hvaða krafna frumvarpið nær. Hér er fyrst og fremst verið að hugsa um heimilin í landinu og þau lán sem hvíla á íbúðum fólks. En getur verið að ákvæði þessa frumvarps leiði til þess að t.d. þeir sem eiga inni vangoldin vinnulaun muni lenda í þeirri stöðu að þeir sem skulda laun komist upp með að greiða þau ekki? Ég átta mig ekki alveg á því við lestur frumvarpsins og þyrfti að fara betur yfir þann þátt málsins. Ég held að við hljótum að taka þessi atriði til skoðunar. Það væri ófært ef niðurstaða málsins yrði sú að frumvarpið leiddi til þess að fólk ætti eftir samþykkt þess erfiðara en áður með að gera kröfu til þess að laun þess yrðu greidd.

Fleiri dæmi má nefna. Ég nefni þau ekki af því að, eins og ég sagði í upphafi, ég líti þetta frumvarp neikvæðum augum, alls ekki. Ég bendi bara á að í því kunna að vera þættir sem þarfnast nánari athugunar.

Ég held líka að við ættum að velta fyrir okkur öðrum leiðum til að ná sömu markmiðum og frumvarpinu er ætlað að ná. Ég hef tekið eftir því að ýmsir aðilar sem hafa tekið til máls í umræðunni um greiðsluvanda heimilanna hafa bent á þá leið að hugsanlega væri skynsamlegt að taka upp það kerfi gagnvart því fólki sem á í greiðsluvanda eða sér fram á fyrirsjáanlegan greiðsluvanda að komið verði upp fyrirkomulagi sem mundi þá virka þannig að kröfueigandinn, t.d. Íbúðalánasjóður, mundi eignast hluta af þeirri eign sem hann hefur lánað til, yrði þá að hluta til eigandi þess húsnæðis sem skuldarinn gæti ekki greitt af. Til að gefa vísbendingu eða loforð um það að þegar um hægist og hagurinn batnar væri hægt að kveða á um það í slíkum lögum að skuldarinn ætti þá einhvers konar forkaupsrétt að þeim hlut sem lánastofnunin leysir til sín tímabundið. Slík leið kynni að vera fær til að koma í veg fyrir þann vanda sem ég nefndi áðan, mundi girða fyrir það að fólk hætti að greiða af lánum sínum og kynni að koma í veg fyrir að aðgangur að lánsfé mundi minnka. Niðurstaðan kynni að vera sú sama, hún kynni að koma heimilunum í landinu jafn vel.

Ég vildi koma þessum sjónarmiðum mínum á framfæri í þessari ræðu minni sem innleggi í umræðuna. Ég vil aftur taka það fram sem ég gerði í upphafi að ég er alls ekki neikvæður gagnvart þessu frumvarpi, síður en svo. Þau meginsjónarmið sem byggja að baki því eru þau sömu og ég hef áður reifað og ritað um í greinum sem ég hef birt í dagblöðum. Hér er um það mikilvægt mál að ræða, og hliðarafleiðingar þess sem að er stefnt kunna að vera einhverjar aðrar en menn hafa séð fyrir, afleiðingar sem við hljótum að skoða í nefndinni þegar málið kemur til hennar og við fáum það til efnislegrar umfjöllunar.