136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

uppbygging og rekstur fráveitna.

187. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. umhvn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Umhverfisnefnd hefur haft þetta frumvarp til umfjöllunar en löngu er orðið tímabært að setja vandaðan lagaramma utan um fráveitustarfsemina í landinu. Fráveitustarfsemi hefur auðvitað farið mjög vaxandi hjá sveitarfélögunum enda hefur verið unnið að mjög metnaðarfullu hreinsunarátaki og umhverfisátaki á vegum sveitarfélaganna á undanförnum 15 árum eða svo með gríðarlega miklum árangri víða í því að hreinsa fjörur í sveitarfélögum og draga úr mengun. Það hefur, eins og fram kom við 1. umr. um frumvarpið, verið unnið að þessu máli á vegum umhverfisráðuneytisins um allnokkurt skeið í góðu samstarfi við sveitarfélögin, eðli málsins samkvæmt, sem að málinu koma sem rekstraraðilar, og fjölmarga aðra aðila.

Milli umræðna hefur umhverfisnefnd fengið á fund sinn fjölmarga gesti eins og fram kemur á áliti nefndarinnar, á þskj. 558. Ég ætla ekki að fara yfir nefndarálitið en ég held að almennt megi segja að ánægja hafi verið með efni frumvarpsins þótt fram hafi komið hjá einstaka umsagnaraðilum áhyggjur af því að það kynni að fela í sér umtalsverðan aukinn kostnað fyrir notendur kerfisins. Til þess að forða slíkum óþarfa áhyggjum undirstrikar nefndin það í áliti sínu að frumvarpið er fyrst og fremst útfærsla á þeirri starfsemi sem fyrir er í landinu og á ekki að leiða til verulegs kostnaðarauka. Það eru engar gjaldtökuheimildir umfram það sem finna má almennt í lögum um t.d. vatnsveitur og til að mynda er ekki gert ráð fyrir neinni sérstakri arðsemiskröfu á eigin fé sveitarfélaganna í þessari starfsemi.

Það voru ýmis álitamál sem lutu að stærðarafmörkun þeirrar byggðar sem félli undir tiltekin ákvæði laganna og beitti nefndin sér fyrir því að rýmka þau nokkuð og gera þau háð mati hverju sinni þannig að ekki væri verið að skipuleggja byggð sem væri ákveðinn fjöldi húsa einmitt rétt undir tölunni sem getið væri í lögunum heldur þyrftu menn hverju sinni að meta aðstæður og hvort tilefni væri til þess að hlutaðeigandi byggð félli undir lögin.

Breytingartillögur nefndarinnar, á þskj. 559, fela ekki í sér neinar verulegar efnisbreytingar en nefndin telur þó að þær séu almennt til bóta og að þeim stendur umhverfisnefnd öll.